Grimm er sú glíma
gegn eigin huga
þegar hann þjakar
þrúgandi myrkur
Vanur að verjast
vonleysinu einn
dragandi djöfla
dapur í hljóði
Átti mér ósk að
eignast til banda
vin sem þá vildi
vaka yfir mér
Einhvern sem einnig
yfir ég gæti
vakað og verndað
vörgum lífsins gegn
Lengi bar leitin
lítið úr býtum
horfinn í hugar-
heim fyrir löngu
Einn og óstyrkur
inní mér dvaldi
fékk þó að finna
frið öðru hvoru
Frelsið ég fékk er
fannst þú mig kæra
lásinn aflæstir
losaðir mig út