útrás ég fékk í þunglyndisljóðum
en lekans varð vart í sorgarflóðum
þá flæddi allt slæmt inn í sálina bitru…
samviskan hélt strax áfram að narta
skrapaði leið sína inn að hjarta
og áfram ég dvaldi í herbergiskitru…

hamingju fékk ég með ástarljóði
endaði glaður hjá fögru fljóði
þá fylltist ég andagift aftur að nýju…
efnivið sótti ég æ til hennar
í blíðunni mínir heitu pennar
í blindni skópu á blöðum mínum hlýju…

en núna er fang mitt frosti vafið
fljótur hef ég gleði mína grafið
lífið mitt er ekki ennþá hafið
en sorgin hefur myrkrið lengi tafið…

kannski væri skást að sefa hjartað
svo ég geti ekki lengur kvartað
ég held því á brott til að forðast allt frostið…
þíða þegar ég mun snúa aftur
þá mun aftur eflast hjartans kraftur
elding getur ei á sama manninn lostið…

ljóðin þjóna sálu ei sem áður
sefa ekki hjartað ef ég bráður
þarf að losa útrásina þjáður…

vil ei vera ljóðum mínum háður…


-Danni-



***Sem betur fer nokkuð síðan ég samdi þetta (um það bil mánuður). Maður er betur stemmdur þessa dagana :)***
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.