þegar þú horfir svona á mig
langar mig
í þig

mig langar að grípa eldhúshnífinn
skera þig á háls
svo blóðið úr þér sprautist upp um allt
ég vil dýfa pensli í lífsvökva þinn
mála töff slagorð á stofuveggina
plokka úr þér augun
og senda þau eitthvað…ekki til mömmu þinnar, kannski í Pentagon
strá yfir hrásykri til gamans
rífa upp á þér hárið með rótum
og vefa úr því körfu
því mig vantar eitthvað til að geyma í
tærnar á þér og fingurna
og mig langar að slíta af þér varirnar
svo ég geti kysst þær góða nótt á hverju kvöldi
safna saman úr þér beinunum
skafa af þeim kjöttætlurnar
og búa til úr þeim óróa sem ég hengi í gluggann minn
svo það hringli í honum við mjúka snertingu kvöldgolunnar
mig langar að skera í sköllótt höfuð þitt
með vel brýndum hringskera
og taka upp heilann
titrandi blautan og heitan
viðkomu
og setja hann í útflúraða postulínsskál
svo ég geti virt hann fyrir mér áður en ég sofna
úrvinda
en sátt
að lokum

aðeins í pörtum
ógnar þú ekki
sjálfsstjórn minni