(Tileinkað Compay Segundo heitnum. Skrifað að mestu leyti á Django-djass tónleikum á Akureyri 8. & 9. ágúst s.l.)

Þykkar neglur, slitnar, strengjum vandar,
á gömlum fingrum gítarleikarans,
siggi grónir, hrukkum prýddir
- af gigt sárkvaldir á köldum dögum -
en ekki í kvöld.

Ekki í kvöld.

Fjórum tímum síðar, enn ólúnir,
fingruðu þeir hljóðfærið
af næmni sextíu ára sambands þeirra
og hver mínúta var spiluð
sem sú síðasta væri.

Hann töfraði, hljóður, fram tóna
sem engan hafði grunað
að gítarinn hefði í iðrum sínum að geyma;
sögur sem allir í salnum þekktu
en komu ekki orðum að, eins fagurlega
og sex strengir gerðu þetta kvöld.

Það heyrðu það allir með hverjum slætti,
þar sem strengirnir titruðu
og lifnuðu við undir snertingu hans,
tilfinningar sínar á tónaformi
hispurslaust útlagðar.

Perlurnar glitruðu,
ruddu sér leið niður vangana;
óstöðvandi straumur,
flaumur botnlausrar lindar.

Gestirnir grétu, og þerruðu tár
undan þrálátum árásum parsins
sem sagði það allt - án orða.

kv.
Laurent/Keats