Sæll, ég reikna með að þú hugsir þetta sem rapp-lag, miðað við þetta. Þú kemst þá líka upp með meira en ef þú hefur þetta bara sem ljóð. Það er bara þannig að góð tónlist getur híft texta töluvert upp. Ég er annars mjög hrifinn af upphafinu.
En hér eru nokkrar tillögur að breytingum á fyrstu línunum:
Hlustaðu (nú) á kveðju, köldum kistubotni frá.
Rofinn róm sem bergmálar og svífur þarna hjá.
Ofar, hvíla geislar, grafarbakka(num) á.
Umluktir englum, sem dánir aðeins sjá.
Þetta lagar hrynjandann miðað við þann rapp-hrynjanda sem ég held að þú hafir hugsað þér.
“Englar sem krjúpa og biðja, biðja um fleiri andartök að fá.
Biðja um fleiri stundir, festingunni á.”
Hmm… átta mig ekki á hvaða festingum þú átt við. Af hverju eru englarnir að krjúpa og biðja um fleiri andartök. Þessir erindrekar og sendiboðar almættisins, hvað skiptir það þá máli hvort við erum hér andartaki lengur eða skemur? Hér gætirðu til dæmis farið út í þá *sálma* (pun intended)…
Það e reyndar alltaf ákveðinn meðalvegur milli þess að vinna úr einhverju og síðan að predika.
“Þessi ljósblá, ljúfu augu, þau skáru svartnættið
og földu mínar sorgir og færðu mér frið.”
“þau” eru hér hækja - þú ert búin að nefna augun, smáorðið er hérna sem uppfylling - eða áhersla. En þú getur hnoðað þessar línur aðeins meir, hvað með t.d.:
Þessi ljósblá, ljúfu augu, SEM skáru svartnættið
földu mínar sorgir og færðu mér LOKS frið.
Hérna ertu kominn með betra flæði, engin augljós hækja og hvert setningarbrot leiðir því síðasta í eins konar orsakasamhengi - með því að skera svartnættið földu þessi ljósblá ljúfu augu mínar sorgir og færðu mér loks frið.
“Nú kemur þú og kveður, og kissir kistur tvær.
En í þeim hvíla trú og von, á meðan kærleikurinn færist fjær.”
Þarna myndi ég sleppa “En” og hafa tvípunkt á eftir tvær. Seinni línan er síðan heldur löng, sérstaklega miðað við orðin í lok hennar, það er erfitt að gera þeim góð skil í flutningi.
Já, og umluktir bara með einu k-i.
Svo er spurning hvort þú viljir í ljóðinu aðeins útfæra betur aðstæðurnar. Ég er allavega forvitinn þegar ég les ljóðið og myndi vilja sjá aðeins betur ‘sviðið’ sem þú ert að bregða upp mynd af. Er bara verið að jarðsetja þessa ídeala, eða er andlát manns í spilunum? Ef hún er að kveðja ídealana þá er hún meðvituð um það, þar sem hún er að kveðja tvær kistur.
Ein tillaga - bara tillaga, og út frá þeirri hugmynd að andlát manns sé hérna inn í myndinni: Ein kista sem hún kveður, hún er þannig ekki meðvituð eins og málpípan í þessu ljóði, á hvað verið er að kveðja. Í kistunni er síðan trú og von og hugsanlega einn skrokkur líka.
Því meir sem ég hugsa um þetta þá átta ég mig á að ljóðið orkar tvímælis á mig: Fyrri hlutinn virkar eins og um mannsandlát sé að ræða; sá seinni eins og þetta sé einungis líkingar, verið sé að kveðja vonina um að eitthvað samband á milli tveggja einstaklinga. Ef hið síðarnefnda á við þá er spurning af hverju hún er að kveðja trú og von, ætti það þá ekki að vera öfugt, ‘höfundurinn’ áttar sig á því að þýðir ekki að bíða lengur og ákveður að fyrra bragði að gleyma því?
Jæja, þetta er nú orðið mun lengra en ég ætlaði mér. Vona að það sé eitthvað gagn að þessu.
bestu kveðjur,
Laurent/Keats