Það sem ég er að reyna að koma til skila er, að sama hversu hart er barist gegn þessu þá mun málið sjálft velja og hafna. Í dag heyrir maður unglinga, allt að 17-18 ára gamla tala um að býtta. Þetta er þeim tamt, þetta er þeirra málheimur. Það er enginn að tala um að breyta þínum, en er það ekki frekja af okkur að ætlast til að þau noti sama orðaforða og við? Þegar allt kemur til alls, þá nota þau orðin sem þau eru vön og koma fyrst upp í huga.
Sama má segja um þig og mig. Ég nota aldrei nokkurn tímann orðið langferðabíll, heldur vel alltaf rúta fram yfir. Ert þú ekki sek um sömu synd? Ég vel aldrei bifreið fram yfir bíl, ert þú ekki sek um sömu synd? Sjálfur nota ég ekki orðið býtta en reyni hins vegar að sýna þeim sem ekki tala eins og ég þolinmæði, því það er ekki mitt að ákveða hvað sé rétt eða rangt.
Þegar þú talar um að þú veljir ástkæra ylhýra, þá ertu í raun að segja að þú talir rétt og þeir sem tala ekki eins og þú, vitlaust. Þessi hugsun lýsir annars vegar hálfgerðri hræsni og hins vegar málrembu. Hræsnin felst í því að þú vilt að þér eldra fólk viðurkenni þinn talsmáta sem hið ástkæra, ylhýra þrátt fyrir að þar komi fram hundruðir tökuorða sem mörg hver hefur eldra fólkið gömul og góð orð yfir, en þú viðurkennir ekki orðin sem þér yngra fólk tekur upp. Málremban felst í því leyfa sjálfum sér að hugsa sem svo, að þar sem þau orð sem mælandi valdi voru ekki þau sem ég hefði valið, tala ég betri íslensku. Svolítið eins og karlremba: karlmenn er sterkari, betri osfrv., af því að þeira hafa typpi.
Ég lít á málið frá öðru sjónarhorni. Á meðan börn og unglingar taka við tungumálinu frá eldri kynslóðunum og bæta við orðaforðann, þá höfum ekkert til að kvarta yfir. En þegar annað hvert orð er fokk eða sjit, þá þurfum við að hugsa okkar gang, t.d. ef að 1976 hefði ekki vitað að hægt væri að segja: Hverju skiptir það? þá væri við í vanda stödd. En staðan er þannig í dag að málið eykur orðaforðann sem er í stöðugri endurvinnslu. Það tel ég vera góðs viti að í dag er hægt að velja milli td. djóks og gríns. Og ég er handviss um að eftir 80-150 ár, þá verður komin merkingarmunur á djóki og gríni, ekki verður allt djók grín þá, s.br. merkingarmun sagnanna ganga og strunsa.
Ég tel það vera skyldu hverra kynslóðar að koma læra tungumálið, bæta við það og koma því til næsta kynslóðar. Við eigum ekki, hreinlega megum ekki láta það staðna og rotna.
Og það er mýta að við getum enn lesið Íslendingasögurnar. Ef svo væri þá þyrftum við ekki að láta samræma stafsetninguna og heimfæra textann. Við ljúgum þessu að okkur sjálfum til að viðhalda mýtunni. Ef að Codex Regious yrði ljósrituð og rétt einhverjum Jóa út í bæ, væri ósköp lítið þar sem hann skyldi, kannski eitt og eitt orð. Sumir næðu jafnvel um hvað bókin væri, en ekki mikið meira en það. Ef að við gætum enn lesið handritin án hjálpar, þá þyrfti ekki að kenna íslenskt fornmál og handritalestur í Háskólanum. Sú mynd sem birtist í skóla- og lestrarbókum er mikið breytt frá þeirri mynd sem er að finna í handritunum og þetta veistu. Auk þess koma þar oft fyrir orð (sérstaklega sagnir) td. í fornkvæðunum sem aðeins lærðir einstaklingar vita hvað merkja. En við viðhöldum mýtunni…af hverju? Jú, við getum krafsað okkur í gegnum yngri handrit, sum jafnvel allt frá 15. öld en eldri handrit en það…ég er ekki svo viss um að hver sem er gæti gengið inn á Árnastofnun og lesið elstu handrit Snorra-Eddu.
Ein spurning: Hvað er hrein íslenska?
'Það sem ég er að reyna að koma til skila er, að sama hversu hart er barist gegn þessu þá mun málið sjálft velja og hafna.' Tilvitnun lýkur.
Þetta er alveg rétt. Þetta er einmitt það sem ég sagði, að málið væri í stöðugri þróun og tíminn skæri úrum hvað orð lifðu áfram í málinu.
Nei, ég er ekki sú frekja að ætlast til að börn og unglingar noti sömu orð og við. Ætli ég muni ekki eftir orðaforðanum sem maður notaði sem unglingur.
Og með hverri kynslóð koma ný orð. Sum gleymast önnur lifa áfram. Þannig hefur það alltaf verið og mun alltaf verða.
Og auðvitað nota ég orðið rúta og bíll eins og þú
en ekki býtta, af því að það er orð ,sem ekki er'fast í sessi' lengur, nema aðallega hjá börnum og unglingum. Ef til vill kemur sú kynslóð, sem er tamt að nota þetta orð, því aftur inn í málið. Ég veit það ekki.
Ég reyni líka að sýna þeim sem tala ekki eins og ég þolinmæði eins og þú. Nema í slæmum tilfellum ef til vill. T.d. ‘Hann kallaði mig fyrir dómara’. í meiningunni ‘Hann kallaði mig dómara’. Að kalla fyrir,það skeði fyrir mig,o.s.frv. Í slíkum tilfellum reyni ég stundum að leiðrétta viðkomandi einstakling á vinsamlegan hátt.
Það er ekki rétt hjá þér að ég vilji að mér eldra fólk viðurkenni minn talsmáta sem hinn eina rétta . Ég virði talsmáta eldra fólks og reyni að læra af því og eins og ég sagði áður þá veit ég að börn og unglingar hafa sinn sérstaka talsmáta. Ég lít ekki niður á þau fyrir það.
Ætli við séum ekki eftir allt saman að mestu leyti sammála í þessu máli. Allavega eru eftirfarandi orð þín sem töluð út úr mínu hjarta…
'Ég lít á málið frá öðru sjónarhorni. Á meðan börn og unglingar taka við tungumálinu frá eldri kynslóðunum og bæta við orðaforðann, þá höfum ekkert til að kvarta yfir. En þegar annað hvert orð er fokk eða sjit, þá þurfum við að hugsa okkar gang, t.d. ef að 1976 hefði ekki vitað að hægt væri að segja: Hverju skiptir það? þá væri við í vanda stödd. En staðan er þannig í dag að málið eykur orðaforðann sem er í stöðugri endurvinnslu. Það tel ég vera góðs viti að í dag er hægt að velja milli td. djóks og gríns. Og ég er handviss um að eftir 80-150 ár, þá verður komin merkingarmunur á djóki og gríni, ekki verður allt djók grín þá, s.br. merkingarmun sagnanna ganga og strunsa'. Tilvitnun lýkur.
Það sem eftir stendur af ágreiningi okkar er einungis það að ég er líklega aðeins harðari í leit minni að réttu máli. En eins og þú spyrð.'Hvað er rétt íslenska'? Svara ég aðeins ‘Það er lifandi íslenskt mál’
Það hefur verið reglulega gaman að rökræða og skiptast (býtta) á skoðunum við þig.
Með virðingu og þökk.
cocobana.
0
Takk og sömuleiðis…
MBK,
Tma
0