Það brotlenti engill
á höfðinu á mér
er ég horfði á endursýninguna
af gærdagsveðrinu.

Sólin auglýsti sig billega
eins og á útsölu
og maður hamstrar
því prísinn mun hækka
með haustinu.

Ég hækkaði volúmið
og fuglarnir hlýddu
og já, bíddu,
það brotlenti engill
á höfðinu á mér.

Ólmur í að verða fyrstur
um leið og ský dró fyrir næsta þátt
þyrstur í að flæða
um gruggugan himininn
svona eins og peningarnir
sem ég fordæmi fnykinn af
gretti mig
og gef skít í veðrið.

Svo stytti upp
og dagskráin styttist
í annan endann.

Vindurinn blés, guð sendi hann
til að núa regndropum mér um nasir
og snúa deginum við
svo tært tunglið gæti risið.

Það spurði mig syfjað:
hvernig var dagurinn annars?
Ég svaraði:
Ekkert sérstakur segi ég þér
nema,
það brotlenti engill
á höfðinu á mér.
—–