Ég get ekki annað sagt en að gagnrýni hér inni er farin að ganga út í barnaskap og oftar en ekki dónaskap!

Það er ekkert að því að koma með neikvæða gagnrýni, en það má líka vanda mál sitt og vera ekki of harðorður. Fólk á öllum aldri, ólíkum uppruna, ólíku þroskastigi og ólíkrar trúar (svo eitthvað sé nefnt) sendir inn ljóð og sum ljóðanna eru ótrúlega persónuleg fyrir höfundinn. Við ættum að vanda okkur þegar við setjum fram neikvæða gagnrýni og einnig mætti vanda málfar.

Gott dæmi:

“Ég held þú ættir nú að byrja á að semja á íslensku litli minn, ef þú þá talar íslensku. Þessi enska er allavega ekki upp á marga fiska hjá þér. Ertu bara með eina æð, fáviti?”

Hér mætti segja á vandaðri íslensku…

Þér færi kannski betur að semja á íslensku, þar sem mér sýnist þú ekki hafa fullt vald eða nægan orðaforða á ensku.“ Og réttast væri að segja, æðar, í þessu samhengi ætti æð að vera í fleirtölu; ”but the blood in my vains“.

eða annað dæmi:

”Skorti hlýju og var álíka djúpt og undirskál."

Hér mætti segja…

virðist vera skortur á hlýju og dýpt. ( hér má hafa í huga, við erum mismunandi hlý og djúp ;) )


Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hvort sumir gagnrýnendurnir skilji hvað uppbyggileg gagnrýni gengur út á.
Uppbyggileg gagnrýni gengur allavega ekki út á það að vera með niðurrifsstarfsemi eða niðurlægjandi athugasemdir um þann sem er verið að gagnrýna eða efni hans.

Uppbyggileg gagnrýni gengur út á það að benda kurteislega á það sem betur mætti fara, jafnvel leggja fram tillögur og leiðrétta, en einnig að rökstyðja það sem maður hefur að segja um málið.
Það er margt sem uppbyggileg gagnrýni felur í sér og stór hluti af því er að bera virðingu fyrir einstaklingnum og tilfinningum.

Annað sem ég hef tekið eftir í gagnrýninni er að sumstaðar er myndmálið tekið of bókstaflega og hefur þá sprottið upp smá umræða um táknin og myndmálið, sem ég verð að viðurkenna að er skemmtileg umræða en það má alveg draga mörk þar líka, með smá þolinmæði og kurteisi.


Gribba
~42~
G