Eva
Hver er það
sem gengur í myrkrinu
eftir þröngum stíg
og heldur á silfruðu ljóskeri?
Víst hefur svefninn sigrað mig
en samt sé ég hana skýrt;
hún gengur í skugga draumanna
og er sveipuð silfruðu mistri.
Ég sé að hún er í hvítum náttkjól
og er með rauðan varalit
þetta er hún sem kom fyrst
þetta er hún sem fæddist endur fyrir löngu.
Ljósker hennar varðveitir sál mánans
og líka hjarta mitt;
hún á líf mitt allt að eilífu
og allt sem ég á.