Rósin

Ég fann hér eitt blóm,
fágæta rós,
í garði granna míns.
Ég var hér einn
er leit hana augum
og hún snart hjarta mitt.

Langa tíð stóð ég
og naut fegurðar hennar
en gekk svo hnugginn á braut,
út í einskismannsland
og hirti á förnum vegi
blóm hvers ilmur ei heillaði
svo ég lét það liggja um kjurt.

Áfram ég gekk
um ókunna garða
uns heyrði ég úr fjarska
kallað mitt nafn.

,,Ég elska þig“ heyrði ég
kallað úr garðinum.

,,Elskaðu mig” heyrði ég
kallað úr garðinum.

Ég leit upp og þar var hún,
rósin sú fagra,
sem var mín
en þó eigi mín,
rósin sem gætir myrkrið ljósi,
sem fyllir tómið
og sem fælir burt sorgir.

Ráðvilltur stóð ég
og stend hér enn,
þjófur í Paradís,
og hika við að stela
hinni fegurstu rós.

Á ég þann jarðveg
og þá næringu alla
er rósin mín þarfnast?

Á ég þá ást,
sólskin og hlýju
er rósin mín þráir?

Nemi ég brott
rósina þá fögru
mun hún lifa eða deyja?

Fari ég á brautu,
einn og án rósar,
mun hún þá lifa eða deyja?