horfi skelfdur niður dökku djúpin
dreymi um að komast undir hjúpinn
finna hvar ég hvíli undir skinni
hvort ég leynist ennþá þarna inni…

stend við sjóinn sorgmæddur og sár
sendi niður bryggju lítið tár
horfi kaldur út á hafið rauða
hrollinn sem olli mörgum dauða…

hafið hefur margt sem ég hef núna
helling sorga sem að eru að fúna
dýpin öll sem eftir er að skoða
sjálfur hef ég úr litlu að moða…

tek mér tilhlaup – bruna fram og stekk
titra er ég finn kuldann og sekk
undir býfum botninn hraðar nálgast
byrja sundið áður en ég sálgast…

skríð upp bakkann – titra mig til hita
tennur glamra nánast niður í bita
þó húðin mín hafið nánast frosið
held mér takist ei að fela brosið…

kuldinn sem að þekur staðinn hér
kveikir lítið vonarbál í mér
þurfti kulda til að þiðna á ný
bíð þess nú að sálin verði hlý…



finn hvar svitinn bogar fram og frýs
funinn undir skinni mínu rís
hitinn bræðir litla hjartað frosna
held að litla sálin sé að losna…?

…hitinn bræðir litla hjartað frosna
veit að litla sál mín er að losna…

…þurfti að stökkva – til að vera laus
nú er öll sorg horfin úr mínum haus…



***ehhhhhrrrrrr… veit ekki alveg með þetta ljóð :S Ætlaði að vera svo rosalega djúpur og dularfullur í efni og orðum en fannst þetta nú ekkert svaka stórvirki. Endilega krítiseriði ef þið hafið eitthvað að segja um þetta ;)***
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.