Jæja… þetta á nú reyndar frekar heima á smásögum en ég ákvað að skella þessu hingað inn til að svipað fólk muni lesa það og les ljóðin mín :) Þetta er líka doldið ljóðrænt…

-Kvöldgolan-

…konan hallar sér að manninum á afskekktri strætóstoppistöð og hvíslar undurlágt í eyra hans. heit ástarorð, loforð um nýjabrum í kynlífinu og ferskleika í matreiðslu. maðurinn brosir, hallar sér að konunni til baka, lofar hreinleika í bílskúrnum, alnuddi á kvöldin og rósum á fimmtudögum. þau brosa. í bland við fögur fyrirheit og rómantík í loftinu svífur fersk kvöldgolan um hörund þeirra, svo þau hjúfra sig saman og halda í sér hita. strætisvagninn kemur eftir fimmtán mínútur en þeim finnst það of stuttur tími. þau vilja gleyma sér í faðmi hvors annars og ímynda sér að giftingarloforð þeirra verði loksins að veruleika.
…strætisvagninn kemur. á rúðunni sést lítill feitlaga krakki fletja nef sitt á henni og glápa opinmynntur á parið haldast hönd í hönd inn í vagninn. hann er aðeins tólf ára gamall, hefur séð sitthvað á þessum fáu árum og hefur fetað sín fyrstu spor á lífsbrautinni. foreldrar hans hafa skilið að borði, sæng og börnum, kuldi ríkir í ættinni gagnvart honum, því einkunnir hans og líkami hafa bæði hrapað síðustu mánuðina. hann finnur ekki rómantíkina í loftinu, kvöldgoluna sem skríður ísköld inn í vagninn, né hlýjuna í hjartanu. hann veit að ástin mun aldrei endast. ást sem hann mun aldrei fá.
…bílstjórinn brosir breitt við andlitum turtildúfnanna. hann veit fyrir víst að þau munu fara heim, kveikja á kertaljósum, hlusta á huggulega tónlist og elskast á þann hátt sem hann sjálfur hafði gert forðum. ekki lengur. í huga hans kemur upp minning um ljóshærðu konuna, konuna sem vaknaði upp með honum á morgnana, kyssti hann svo ofurljúft, lagaði örin á hjarta hans og gaf honum allt sem hún átti. allt það stutta líf sem hann endaði sjálfur eina kalda haustnóttina. lítið tár í hvörmum hans kólnar og rennur út kinnina í kvöldgolunni. hann þurrkar það af og harkar sorgina af sér. keyrir enn og aftur af stað út í kólnandi haustnóttina. sömu nótt og áður.
…strætisvagninn rennur ljúft áfram. byggingar þeysast fram hjá og einstaka tírur berjast veikar við myrkrið sem hratt skellur á. díselfnykur vagnsins hverfur í fjölbreyttri lyktinni af hinum farþegunum, ilmvatnslyktinni af dömunni fyrir framan, hestafnyknum af gamla karlinum til vinstri og andremmunni af skrifstofumanninum fyrir aftan. öll eru á leiðinni heim. heim til konu og barna, heim í kakó og tertur, heim í einmanalega íbúð eða heim til ókunnugs daðrara.
…ég horfi á háls fögru konunnar fyrir framan mig. hár hennar er ljóst og liðaðir lokkarnir eru bundnir saman í gylltum kambi. hún snýr sér við og brosir við mér. opnar munninn og segir undursamlegri röddu: “ég var hérna líka fyrir 40 árum”.
…skyndilega breytist bros hennar í angurværan svip, hrukkur sem voru ekki áður dýpka og setja svip sinn á þetta sorgmædda og fagra andlit. hún snýr sér við og horfir fram í vagninn. döpur ýtir á bjölluna og stendur varlega upp. aflvana gengur hún áfram, á stirðum og viðkvæmum fótum, kyssir bílstjórann létt á kinnina, stígur út í myrkrið og hverfur.
…sé að parið er byrjað að kyssast og strákurinn farinn að spila leik í nýja gemsanum sínum. gamli hrossabóndinn og andfúli skrifstofumaðurinn hafa horfið en ég sit hugsi og kaldur eftir. kvöldgolan hefur aukist til muna síðustu andartökin og framkallað frosttár í hvörmum mínum…
…síðustu andartökin fyrir slysið heyrði ég auman grátur fremst úr bílnum. svo man ég ekki meir…
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.