Gyðjur ljóssins.
Þegar sólin sest í lygnan sæ
sofa dalsins börn í rökkurró.
Djúpir draumar setjast að í bæ
dætur lífsins veita hugarfró.
Þær dansa inn í draumaheiminn þinn
í djúpi sálar þinnar leita svars.
Stjörnuglitri strá á okkar kinn
syngja inn í huga sérhvers barns.
Ljóðin þeirra lífga hverja sál
ljósagyðjur hofs í heimi fjær.
Tendra okkar hjartans ástarbál
tilfinningum okkar traustið ljær.
Í lífsins ljós þær bjóða okkur inn
leyndardómsins salur opinn er.
Heilun hjartna okkar þar ég finn
sorgarinnar harmur burtu fer.
SR.7/5´03