Ljóð vikunnar var að þessu sinni ljóðið “Rauð olíulindin brann” eftir meistara Zorglúbb.
Málum bæinn rauðann
sandinn svartann
með olíunni hans Sáms frænda
eða tilvonandi.
Tilvonandi munu svo veggirnir hrynja
og svartar krumlur Saddams brenna í helvíti
og umvefja oss olíusvartur faðmur frelsarans með byssukjaftinn við nef mér.
svo frá himni
gefur oss daglegt brauð með mcdonaldsborgara í
sem vér skolum niður með stoltinu.
Faðir vor, þú sem ert á himni með vopn og lífsins verjur
helgist þín viðskipti
með eign okkar og líf
frelsa oss með góðu eða illu
svo hagsmuni þína skuli gæta
því þitt er ríkið, olían og dow jones
að eilífu
Ameríka.
Zorglúbb hefur fyrir löngu sýnt okkur að þar er á ferð gott skáld. Mörg ljóða hans eru sterk og eftirminnileg. Honum er tamt að nota myndmál umfram hið sagða og leyfir lesanda sínum að draga sínar eigin ályktanir.
Þetta ljóð er ákaflega politískt. Það er ekkert að því að yrkja politísk ljóð, en gallinn er hins vegar sá að þau eiga það til að deyja tiltölulega fljótt. Og ég er hræddur um það muni verða raunin í þessu tilfelli. Ljóð eins og Slysaskot í Palestínu og Barn í Biafra eru dæmi um pólískt ljóð sem geta lifað lengur. Af hverju lifa sum slík ljóð lengur en önnur?
Ef við skoðum ljóðmál þessa ljóðs, þá tökum við fljótlega eftir að þar koma fyrir mjög gildishlaðin orð (svartar krumlur, brenna í helvíti, olíusvartur faðmur, byssukjaftur) sem gefa til kynna ákveðna skoðun ljóðmælanda. Slíkt er ekki að finna í hinum ljóðunum. Þar er dregin upp hlutlaus mynd og þar er það tilfinning lesandans sem færir ljóðið áfram. Í þessu tilfelli er verið að útvarpa skoðunum, en ekki leyft lesandanum að draga þessa ályktun sjálfur. Ég tek það nú samt fram að ég hef ekkert á móti þessari skoðun sem slíkri.
Ljóðið er að hluta til sett upp sem bæn, og þar er vitnað í faðirvorið. Hvers vegna er allt ljóðið ekki sett svona upp? Þetta er nefnilega það sem mér finnst best við ljóðið, frumlegt að setja þetta upp sem bæn til Guðs, því írakska stjórnin setur þetta upp sem heilagt stríð Allah gegn innrásarherjum djöfulsins. Það hefði haft mjög víðtæka skírskotun, en af því að þetta kemur allt í einu inn í miðju ljóði, þá finnst mér það ekki virka jafn sterkt og set spurningarmerki við það hvort að ofangreind nálgun hafi verið tilgangur höfundar.
Ég er ekki ánægður með málfar höfundar. Zorglúbb er nú betur að máli farinn en að segja að einhver sé umvafinn faðmi(!!!), brauð með borgara í(!!! forsetningin óþörf), setningin: svo frá himni (!!! óskiljanleg), svo hagsmuni þína skuli gæta (!!!, er ekki einhver beygingarvilla þarna einhvers staðar?).
Ég verð að viðurkenna það að ég hef séð betri ljóð frá Zorglúbb, þó að ég geti alveg haft gaman af þessu. En ljóð hans hafa yfirleitt þolað mun betur að vera skoðuð mjög ýtarlega. Hann er duglegur í orðaleikjum (frelsarinn með byssukjaftinn, lífsins verjur) en í þessu tilfelli finnst mér að hann þurfi að undirbyggja þá betur. Einnig efast ég stórlega um að þeir séu margir sem sjá skírskotunina í heiti ljóðsins. En fyrir þá sem ekki vita, þá er Z að vísa til fyrstu ljóðabókar Steins Steinarrs sem hét Rauður loginn brann.
Með kveðju
Tma