Gatan er sem dimmur gangur
þögn þakin dropahljóðum
eins og doppur á svörtum steini

Eins og steinsofandi fólkið
í bárujárnskumböldum
sofa þau sjálf þessi blessuðu hús
raða sér eftir götunni
eins og áhorfendur í skrúðgöngu
en það verður engin skrúðganga í nótt.

Aðeins þögn sem rispast
af hvínandi vindi
er læðist frekar klaufalega á milli runnanna.
Í litlum polli speglast einmana ljósastaur
og hristir hausinn ósköp niðurlútur
yfir þessum næðingi.

Það er of kalt!
hvæsir sjónvarpsloftnet fyrir ofan mig
ég samsinni því
og fer aftur inn,
það verður engin skrúðganga hvort eð er.
—–