Hugsjónin var hörð sem ál
í hjörtum brunnu friðunarbál
í náttúrunni skyldi aldrei við neinu hreyfa
Mörgum fannst það versta mál
og mótmæltu af allri sál
þeim stjórnmálamönnum er stóriðju vildu leyfa

En ráðamaður sem öllu réð
reyndist hugsa bara um féð
honum þótti hugmyndin fjandi góð
Hinir hugsuðu'um blómið og tréð
en höfðu það þó aldrei séð
sögðust bera í brjósti hag fyrir landi og þjóð

Stjörnurnar áfram stara
á stórbrotinn veraldarhjara
yfir náttúruperlum í norðri þær ávallt vaka
Þjáningar angra þennan skara
ein perlanna þurfti að fara
var kaffært í vatn og kemur nú aldrei til baka