Grösug hlíðin, græn og fögur
grætur að morgni daggartárum.
Geymir í minni margar sögur
af mannanna ástum og hjartasárum.
Gætur hún hefur á gömlum bæ
sem grafinn er neðan við hana.
Og bíldrusla, eitt bilað hræ,
þar bíður af gömlum vana.
Í norðri særinn lengra nær
en nokkurt auga eygir.
Fjall eitt aðrar áttir fær,
fagurt það hátt sig teygir.
Sól færist yfir fjall að morgni
færir með sér yl og birtu.
Þurrkast fjallabarmurinn forni
og finnur sína sumarskyrtu.
Í dalnum ríkir dásemdarfriður
af draumum lífið vaknar nú.
Jafnvel vindanna vammlausu hviður
varlega ferðast um loftsins brú.
Margt er enn sem minnir á tíma
er menn voru hér og héldu bú.
Þarna var bóndans þunga glíma
þreytt við öflin og eigin trú.
Bóndinn kom með bjarta von
um betri framtíð og skárra líf.
Hann með sér hafði konu og son
himnasælan átt’að verða eilíf.
Innan skamms þau byggt höfðu býli
og brátt þau eignuðust litla dóttur.
Eftir það fæddust þeim fleiri kríli,
í fyrstu bjó í þeim mikill þróttur.
Þá grét hlíðin gleðitárum
er gengu þar um litlar tær.
Elstu tvö börnin höfðu með árum
breyst í ungan mann og fagra mær.
Unga mærin, hún ástina fann
í örmum vinnumannsins.
Þau giftust, hún taldi að hann
væri hennar draumaprins.
Allt lék í lyndi um alllangt skeið
því örlögin voru þeim holl.
En í hendingu þau héldu aðra leið
og hófu að taka sinn toll.
Elsti sonurinn týndist á sjó
síðan ól mærin veika dóttur.
Eftir skamma legu sú litla dó,
í leiðinni minnkaði þeirra þróttur.
Í hörðum vetri hrjáði þau pest
sem herjaði á menn og dýr.
Hún felldi konuna og börnin flest
eins fóru kindur, hestar og kýr.
Mærin hafði alla von misst
maðurinn hennar var styggur.
Í hlíðinni ástin hafði þeim birst
hringurinn enn þar liggur.
Nú þeirra róður varð ansi þungur
og þyngdist með hverri stund.
Bóndinn var ekki lengur ungur,
hann ávallt var þungur í lund.
Að lokum sligaði lífið hann
og lagð’ann í gröfina sína.
Hann sína hinstu hvílu fann,
hann sá sólina aftur skína.
Fjölskyldan sá ekki annað fært
en að flytjast öll í borg.
Þau fóru með flest sem var þeim kært
og fátt skildu eftir nema sorg.
Í hlíðinni leiði nokkur liggja
og legsteinn merkir hvert og eitt.
Sorgin nær allar sálir að hryggja
er setjast þar að yfirleitt.
Dalurinn með sína dauðans ró
dvelur í skjóli fjalla.
Sem grafhvelfing hún geymir þó
gjarnan minninguna alla.
Grösug hlíðin, græn og fögur
grætur að morgni sorgartárum.
Geymir í minni margar sögur
af mannanna ástum og hjartasárum.