Nú ert þú laus við mig, já þetta fór svona að lokum
“þú vildir lifa”, opnaðir tíunda bjórinn.
Ég geng af stað en minn vegur er villtur í þokum,
vörðurnar horfnar og stefnuna ákvarðar skórinn.

Að baki mér læðast sem draugar um dimman slóða
dagarnir sem eru taldir og koma ekki aftur.
Að endingu verður það allt saman minningamóða
myndirnar dofna sem hverfandi lífsins kraftur.

Og óneitanlega þá minnir það ögn á dauðann
þó ekki sé þörf á að afþakka blóm eða krans.
Á vegginn sem þú varst að tala um að mála rauðann
varpar nú ljósið skugga annars manns.