Einu sinni var lítil birkihrísla
sem bjó langt upp í fjalladal
sumar, vetur, vor og haust
hún undi sér á lækjarbakka
með systrum sínum sjö.
Sumardag einn hún spurði
lítinn vatnsdropa sem hoppaði
úr syngjandi kátum læk
hvert farið þið, þú og bræður þínir
þegar þið hverfið mér frá?
Það skal ég nú segja þér hríslan
mín besta og kæra.
Við ærslumst og syngjum með læknum
alla leið niður hlíðina og út í á.
Þar föllum við í faðma okkar
stærri og eldri systkina.
Síðan hjölum við og leikum saman
á lygnum víkum og sléttum flóum
niður eftir öllum dal.
Alltaf verður gleði okkar meiri
því við vitum að bráðum
sjáum við pabba og mömmu.
Þau búa í hafinu stóra
sem áin sameinast við ferðalok.
Þar verða til margir kossar
og gleðitár þegar elstu systur
okkar umvefja sína litlu bræður
í mildum bárufaðmi.
Á hafinu heima hjá okkur
við dveljum um stund
leikum okkur á spegilsléttum
haffleti eða með ógnar stórsjóum
bræðra okkar úthafinu á.
Við hlustum á rödd vindanna
frænda okkar þar sem þeir
leika sér um loftin blá.
Því það kemur sá dagur sem þeir
kalla og bjóða í langferð
á hrímhvítum skýjum mér og mínum
bræðrum.
Við fljúgum á bólstrum og skýjabökkum
þangað sem fjöllin kyssa og faðma himininn
í þeim kossum fæðumst við aftur
og sameinumst á ný í kátum fjallalækjum.
þá er nú stutt í það að ég sjái þig
hríslan mín góða. Og gott verður að fá
að kyssa lækinn sinn aftur og aftur,
og dvelja um stund hjá þér.