Leitin að lífinu
Hvar er lífið sem ég taldi að væri selt í stórmarkaðnum
innanum pakkasúpur og kex?
Já, hvar er það líf, þetta staðlaða líf?
Ég finn það hvergi.
Ég leita búð úr búð frá kaupmanni til kaupmanns í Smára og Kringlu
er jafnvel með stjörnukíki til að leita.
Er það að finna hér í sólkerfinu þetta líf sem ég leita að?
Hafa vísindamenn uppgötvað það og stílfært til fjöldaframleiðslu?
Dauðann finn ég og er þó ekki að leita.
Hann er í síkarettunni og ljósum prýddum skemmtistöðum.
Hann er sveittur á dansgólfinu í alsælu.
Hann er í strætinu, hann er í kogganum, hann er í rauðsprittinu rámur og hás.
Hann læðist að vitundum saklausra barna í formi saklausra leikja,
hann er í barnapíunni sem horfir á saklaust porn með saklausa kærastanum sínum.
Dauðinn er ríkjandi allstaðar í fréttunum, jafnvel í saklausum kosningum og fegurðarsamkeppnum.
En hvar er þetta líf sem mér var heitið í vöggunni og á leikskólanum áður en barna-
pían kom og spillti minni vitund. Áður en fréttirnar smugu inní sálina.
Já, því finn ég það ekki í hillunum innanum tískuvörurnar.
Bandið spilar dauðamarsinn og sveittur strákur á skemmtistað dansar með og saklaus stelpa dansar með án þess þó að vita við hvaða mars hún er að dansa.
Og börnin byrja að syngja „Þá var kátt í höllinni“ við lag dauða bandsins.
Þetta er ljóð mitt til þín, já til þín sem kannt að geyma mitt líf.
Brjóst mitt er fullt af ótta og samviska mín er svört eins og samviskur virðulegra borgara.
En góðborgarar finnast ekki lengur það eru bara rík svín sem felast í fílabeinsturnum með dauðann ræktaðan í görðunum sínum. Það er bara samviskulaust ríkt fólk sem hefur áhyggjur af sveiflum hlutabréfamarkaðarins. Og það býr til fréttirnar og það eru fréttirnar sem spilltu minni sál. Og það er fólkið sem stal lífinu í frelsisins nafni.
Amen.