Vandinn með merkjarana er sá að þeir eru smíðaðir til að skjóta á fólk (á meðna rifflar eru smíðaðir til að skjóta á n.v. allt annað).
Það er því sú hætta fyrir hendi að einhver vanþroskaður einstaklingur ætlaði að nota merkjara sem “hrekkjaleikfang”, og t.d. fara niður í bæ á fylleríi og hræða “vini” sína og/eða stelast í leik innanbæjar (t.d. í garðinum sínum). (maður myndi aldrei gera slíkt með alvöru riffli, enda myndi það vera lífshættulegt, á meðan merkjarinn ógnar bara almannaheill og augum.
Það versta sem gæti komið fyrir íþróttina væri ef einhver krakkabjálfinn myndi skjóta augað úr vini sínum eða ef einhver bitur bakkusarvinur myndi mæta með Spyderinn sinn niður í Austurstræti á laugardagsnóttu.
Það næstversta væri ef einhverjir tækju sig til og færu í óleyfilegan leik á almenningssvæði, s.s. Öskjuhlíðinni, Laugardal, Þingholtunum eða viðlíka svæði. -skiljandi eftir sig málningarklessur og óreiðu.
Það fyrra er hægt að fyrirbyggja með því að gera kröfu um litbyssuleyfi eða almennt byssuleyfi. Þetta leyfi mætti ekki vera of kostnaðarsamt, og ætti að vera bundið við 20 ára og eldri (með skikkanlegan afbrotaferil), en yngri aðilar (15/18ára) mættu hafa byssu sína í vörslu og umsjón manns með litbyssuleyfið.
Þetta, auk ákvæðis um að litbyssueigandi skuli vera meðlimur í litboltafélagi, mun sjá til þess að það verða engir “lone gunmen” þarna úti. Ef einhvern langar til að fara í byssó mun hann hafa greiðan aðgang að öðrum til að spila við, og með því að skikka þá yngstu til að láta einhvern eldri varsla byssuna fyrir sig er fulltrygt að menn fara ekki að gera eitthvað kjánalegt í augnabliks vangá.
Þannig væri tryggt að byssurnar væru í höndum hæfra manna og að litbolti yrði aðeins iðkaður á tilætluðum stöðum þar sem heill almennra borgara væri ekki hætta búin.
***
Ég stend fast á því að einhver besta leiðin til að fá litboltamálum framgent á alþingi væri að bjóða forkólfum flokkanna á litboltamót. (helst með vitund fjölmiðla). Auk þess sem þeir hefðu eflaust gaman af að skjóta hvor á annan, þá myndi þetta vafalítið verða til að greiða fyrir lagafrumvarpi.
Ég held það hafi gengið nokkuð vel til þessa að fá undirskriftir vegna litboltaíþróttarinnar, og ætti ekki að vera erfiðara að setja upp á einhverri vefsíðunni eyðublað. (og ef til vill hjá honum Eyþóri líka).
Það er kannski tímabært að boða til allsherjarfundar litboltafélaga íslands, ræða hvaða skref verða tekin og jafnframt skipuleggja starfsemi ársins. Nú er komið sumar og menn farið að kitla í gikkfingurinn og um að gera að leggjast á eitt við að auka hróður litbolta.