Breytingar hjá Litboltafélaginu Eins og þið hafið kannski tekið eftir á http://www.hugi.is/litbolti/ þá hafa orðið töluverðar breytingar á Litboltafélaginu undanfarna mánuði og vikur.

Fyrst var nafninu breytt í Litboltafélag Hafnarfjarðar og Grétar Bragi tók við sem formaður.

Nú hef ég hætt í stjórn félagsins og Ívar tekið við af mér.

Ívar er nú gjaldkeri félagsins og sér um öll innkaup og pantanir héðan í frá.

Hann hefur kynnt sig á hugi.is og þar má finna netfang hans og símanúmer. Hafið endilega samband við hann ef þið hafið einhverjar spurningar um búnað, verð og allt annað sem tengist innflutningi.

Ég hef sinnt litbolta í flestum frístundum síðan snemma árs 1998. Fyrst með gagnasöfnun og tengslum við litboltaspilara erlendis, því þá var litbolti bannður á Íslandi. Það var erfitt fyrst því þegar ég spurði erlenda spilara um lög og reglur um litbolta höfðu þeir ekki hugmynd um það. Frelsi til ástundunar íþróttarinnar var þannig að þáttakendur urðu ekki varir við löggæsluna sem hluta af sportinu. Búnaðurinn var keyptur út í búð og menn spiluðu á völlum, reknum sem fyrirtæki og greiddu aðgangsgjald fyrir.

Þegar ég komst í lagasöfn Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur leitaði ég uppi löggjöf og reglur um skotvopn og litbolta. Afrakstur þess var erindi sem sent var Dómsmálaráðherra og kynnt henni á fundi snemma árs 2000. Ég tók á sama tíma þátt í stofnun Litboltafélagsins í febrúar 2000 og verið formaður þess til Grétar tók við af mér.

Árangurinn var reglugerð um litmerkibyssur, sett í júní 2000, sem leyfði litbolta með þeim skilyrðum sem enn gilda. Þá tók við hörkuvinna við að uppfylla öll skilyrði reglugerðarinnar og finna út úr því með lögregluyfirvöldum hvað það væri sem skilyrðin færu fram á og hvað myndi uppfylla þau og hvernig það yrði gert.

Þegar líða tók að vori 2001 var þeirri vinnu lokið og fyrstu 7 merkjararnir komu til félagsins í apríl 2001. Flottir krómaðir Inferno T3.

Völlurinn í Lundi Kópavogi hóf rekstur á sama tíma og Infernoarnir okkar voru prófaðir í Lundi á sömu dögum og völlurinn opnaði dyrnar fyrir almenningi.

Og afganginn þekkja þeir sem tekið hafa þátt í starfi félagsins……

bestu kveðjur
Guðmann Bragi Birgisson