Það hefur mikið verið spáð og spekúlerað í að þemaleik í litbolta að undanförnu. Þemaleikur gengur út á það að í hvoru liði er stór hópur manna, allt að 250 manns í stærstu leikjunum erlendis. Hópurinn lýtur stjórn liðsstjóra. Í þemaleik geta verið mörg lið og eiga þau að leysa þrautir og ná ákveðnum markmiðum. Sum markmiðin eru oft án litboltaspils, en oftast nást þau með litboltaleik.

Liðstjórinn skiptir liði sínu í hópa og úthlutar þeim verkefnum og markmiðum. Þegar leikmenn eru merktir úr leik fara þeir aftur í sína heimahöfn og liðstjórinn setur þá í nýjan hóp. Þemaleikir eru oft 12 til 48 klukkustunda langir.

Þemaleikir taka oft markmið og verkefni úr þekktum sögulegum aðstæðum og byggja þemað á því. Til dæmis var leikur í USA um daginn sem byggði á Hróa Hetti og köppum hans. Þegar leikurinn hefst er Ríkharður Ljónshjarta á leið heim úr krossferð en er tekinn í gíslingu í Þýskalandi. Hrói höttur er aðalsmaður og liðstjóri síns liðs. Konungshollir aðalsmenn í liði hans þurfa að finna og safna fjársjóðum til að nota í lausnargjaldið (finna hluti á litboltavellinum og halda þeim allan leikinn). Jóhann Landlausi er bróðir Ríkharðs og hefur sinnt konungsskyldum í fjarveru hins rétta konungs. Jóhann vill gjarnan vera konungur áfram og sem liðstjóri síns liðs þarf hann að yfirbuga Hróa og koma í veg fyrir að lausnargjaldið verði greitt. Fógetinn í Nottinghan er liðstjóri þriðja liðsins. Hann er einnig stuðningsmaður Jóhanns. Verkefni hans er að halda stjórn á bændum og almenningi í sveitinni, sem hann gerir með harðstjórn og yfirgengilegri skattheimtu (tekur því peninga sem Hrói vildi gjarnan að fólk leggði sjálfviljugt í sjóðinn til lausnar konungs). Bróðir Hróa Hattar er Vilhjálmur Skarlat. Hann hefur hafið opinberlega uppreisn gegn fógetanum og er því orðinn að glæpamanni. Hrói má því ekki sýna honum opinberlegan stuðning. Verkefni Vilhjálms er að ná fram réttlæti fyrir almenning. Inn kemur fimmta liðið, Musterisriddararnir, sem hefur það verkefni að tryggja hagsmuni kaþólsku kirkjunnar í öllu saman, sem sagt að prestarnir haldi áhrifum sínum, kirkjurnar verði ekki rændar og það mikilvægasta að helgigripur sem var dómkirkju héraðsins, flís úr krossi Jesú, finnist og verði aftur komið í dómkirkjuna. Musterisriddarar geta því unnið einir, eða gengið til liðs við einhvern hinna fjögurra, jafnvel skipt um hollustu, allt eftir því hvað hentar markmiðum þeirra.

Þemaleikur sem þessi er að jöfnu spilaður sem spunaspil þar sem liðstjórar og helstu hópstjórar þeirra hittast til að semja við andstæðingana, reyna að vinna stuðning Musterisriddaranna og kaupa og selja þá hluti sem eitt af hinum liðunum þarf, en þú hefur náð.

Litboltaspilið í þemaleikjum gengur út á að finna hluti sem eru faldir á leiksvæðinu. Oft er það mjög stórt, fleiri ferkílómetrar að flatarmáli. Safna þarf hlutum í heimahöfn og halda þeim þar. Oft er það einnig skilyrði að ná verður heimahöfn andstæðinganna einu sinni á tímanum sem leikurinn stendur yfir og halda henni í ákveðinn tíma, til dæmis 5 mínútur.

Jæja…hvernig líst ykkur á. Eigum við að reyna að setja upp lítinn þemaleik sem tæki svona 3 klukkutíma eða eitt kvöld eða eftirmiðdag. Það þyrfti að lágmarki 24 þáttakendur, 12 í liði, sem skiptast í 3 fjögurra manna hópa. Líklega er auðveldast að spila í Lundi og hafa allt svæðið undir sem spilasvæði. Ef ég finn fyrir áhuga og líklegt er að fjöldinn náist, þá byrja ég á að hanna leikinn.

kv,
Guðmann Bragi
LBFR