Starfandi eru nokkur áhugamannafélög um litbolta á landinu. Þeirra stærst eru Litboltafélag Reykjavíkur [LBFR] og Litboltafélag Suðurnesja [LiBS].
Starfsemi þessara félaga var upprunalega til þess að fá litbolta samþykktan á Íslandi þannig að hægt væri að spila hann löglega. Þegar að það gekk í gegn sumarið 2000 og reglugerð um litbolta leit dagsins ljós kom upp annar tilgangur fyrir starfssemi félagana.
Skv. 3. grein reglugerðar um litbolta hljóðar svona:

“Notkun litmerkibyssa er bönnuð nema á afmörkuðum viðurkenndum svæðum. Litmerkibyssur skulu vera í eigu fyrirtækis eða félagasamtaka sem hafa litboltaleik að markmiði og hafa fengið viðurkenningu ríkislögreglustjórans. Slík félög skulu hafa aðgang að öruggum geymslum fyrir litmerkibyssur og hlutum er þeim fylgja og halda um þá skrá.
Umsjónarmenn hvers félags bera ábyrgð á útlánum litmerkibyssa og að þátttakendur í leik beri sérbúnar andlitshlífar til að koma í veg fyrir meiðsli.”

Með þessari grein er einstaklingum óheimilt að eiga sínar eigin merkibyssur og verða félögin að hafa umsjón með þeim. Þessu eru LiBS og LBFR að reyna að breyta og vilja að allavega þeir einstaklingar sem hafa almennt byssuleyfi getir átt sína merkjara sjálfir. Það er hálf hallærislegt að einstaklingar sem hafa leyfi fyrir höglurum og þess háttar vopnum megi ekki eiga sína merkjara sjálfir.

Á milli LiBS og LBFR er talsverð samvinna og um að gera því bæði félögin eru staðsett hérna á suðvestur horninu. Eftir að meðlimir beggja félaga hófu að versla sér sína eigin merkjara hefur verið mikið um það að þessi félög hafa skipulagt leiki og spila talsvert saman. Bæði félög hafa geymsluaðstöðu fyrir sína merkjara hjá Litbolta ehf. í Kópavogi og sáu þau t.d. um vinnudag til að laga velli Litbolta ehf sem skemmst höfðu í vetur. Þetta var gert uppí leigu á húsnæði og geymsluaðstöðu í Kópavogi.

Stefnt er að því að stofna Landssamtök Litboltafélaga núna í vor og verður það félag baráttuaðili félagana fyrir breytingum á reglugerð og þess háttar málum.

Núna þegar félögin eru bæði að stækka ört er stefnan sett á að halda nokkur mót og um að gera fyrir áhugasama að skrá sig í félag, versla merkjara go byrja að æfa sig á fullu því að gróskan er mikil á þessu sviði. Stefnt er að því að heimsækja liðin útá landsbyggðinni í sumar og ber þar helst að nefna Litboltafélag Austurlands [LBA] sem að hefur boðið okkur að koma og spila.

Litboltafélag Reykjavíkur er komið í sambönd við umboðsaðila erlendis og erum við að bjóða félögum litboltafélaga að versla sér litboltavarning á heildsöluverði. Má segja að hingað komið með innflutningsgjöldum og virðisaukaskatti séu verðin sem LBFR er að bjóða oft 10-30% ódýrari en útúr verslun í Bretlandi og Bandaríkjunum. Einstaka skipti eru verðin dýrari en þá á eftir að flytja vöruna inn og borga af henni öll gjöld. Með þessum samningum hefur LBFR verulega ýtt undir útbreiðslu litbolta og gert startið mun ódýrara en ella. Einnig hefur LBFR verið að selja kúlur á kostnaðarverði og mun halda því áfram eftir því sem kostur er.

Það er markmið beggja félaga að hafa sinn eigin völl fyrir félagsmenn. Þar sem félagsmenn geta komið og æft sig og skemmt sér saman á löglegum velli án þess að greiða fúlgur fyrir. LiBS er komið lengar í þessum málum en LBFR og eru þeir að bíða eftir samþykki á sínum tillögum fyrir velli frá bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Talið er líklegt að það samþykki fáist á næstu vikum. Erfiðara er að fá slík mál í gegn í Reykjavík.

Litbolti er ekki viðurkennd íþrótt í Evrópu. Það er eins og öll lönd séu að bíða eftir að eitthvað annað land taki af skarið til þess að samþykkja íþróttina, sem litbolti vissulega er. Það er atvinnumannadeild [NPPL] starfandi í litbolta og eru nokkrar mótaraðir í gangi. Sú virtasta og best skipulagða er reyndar í Evrópu þó að bestu spilararnir séu frá Bandaríkjunum.

Þetta er svona stutt ágrip um litbolta á Íslandi og víðar.

Það er vonandi að þetta sport eigi eftir að vaxa og dafna. Það er um að gera fyrir fólk sem aldrei hefur farið í litbolta að prófa að spila, en ég ætla að vara ykkur við, þegar þið eruð búin að prófa einusinni þá eruði algjörlega húkkt.

Seinna.

Xavier

Xavier er í stjórn LBFR og í vallarnefnd LiBS. Xavier er reynar eini ma'ðurinn sem vitað er um að sé fullgildur meðlimur í báðum félögum.