Ég prófaði að fara í paintball í Kópavogi ásamt hóp af félögum mínum um daginn. Flest allir voru mjög spenntir fyrir þessu og vorum við allt í allt um 16-18 manns. Við vorum búnir að panta völlinn og hvaðeina.
Þegar við komum þarna fengum við hlífðargalla og tilheyrandi auk þess að fá lítinn fyrirlestur um hvað má og hvað ekki í paintball. Þetta virtist allt mjög einfalt ef reglunum var fylgt.
Loksins byrjaði þetta þó, það var einn dómari og tvö lið. Dómarinn sem var fyrst með okkur var ansi feiminn, áttum erfitt með að heyra í honum þegar hann var að útskýra leikina. Hann gerði þó ekki mikið annað en að taka tímann á leikjunum.

Þetta byrjaði vel, þar til einhverjar byssur fóru að bila. Svo eftir 2 leiki vantaði mörgum skot þannig að það kom maður út með skot handa okkur og skráði niður nafn á hverjum og einum og hve mörg hylki hver og einn fékk. Þessi gaur var mjööög önugur og leiðinlegur. Svo seinna þegar við skiptum yfir á hinn völlinn (það eru 2 vellir, einn stór og hinn minni) var þessi önugi gaur dómarinn. Hann vildi ekki gefa okkur hlé til að fara inn eins og alltaf er vaninn í þessu. Honum fannst greinilega ekki gaman í starfi sínu þarna, það var alveg ljóst, og hann fékk útrás fyrir leiðindi sín á okkur. Sumir okkar voru orðnir leiðir á þessu, auk þess voru sumar byssur alltaf að bila og skotin að springa í byssunum svo þær fylltust af málningardrullu. Svo voru þessi skot heldur ekkert ódýr, 990 kall fyrir 100 skot, maður mátti ekkert við því að annað hvert skot sprakk í byssunni sjálfri.

Svo í síðasta leiknum voru einhverjir af okkur sem voru búnir að fá sig fullsaddan af dómaranum leiðinlega og ákváðu að skjóta hann. Allt virtist fara í taugarnar á honum, ef byssan bilaði þá var það okkur að kenna, ef hann fékk ekki fulla athygli strax við að útskýra leik þá varð hann fúll, ef einhver varð skotfæralaus og þurfti að fara inn að kaupa fleiri skot fyrir næsta leik þá varð hann fúll! Alveg í lok síðasta leiksins voru einhverjir sem bara skutu á hann þegar hann var að labba um svæðið og tékka á stöðunni…ég meina, slysin gerast ;)

En í heildina litið var þetta ágætis ferð, þó ansi dýr. Ég bara get ekki trúað því að þessi skot séu svona svakalega dýr. Eitt skot er á um 10kr. Þetta var alveg svakalega gaman, þó reyndar að þessi önugi dómari, dýra verð og byssuvandræði hafi dregið aðeins úr manni góða skapið. Ef ég ætti þennan stað þá myndi ég reka þennan gaur á staðnum, allt hitt starfsfólkið þarna var mjög almennilegt.

En ég væri alveg til í að fara aftur einhvertíma, þetta er ágætis afþreying og flottur völlur þarna.