Driveby
Eitt sinn man ég eftir að hafa lesið greinar hérna um að einhverjir náungar væru að aka um og skjóta úr litboltabyssum á almannafæri. Þetta þótti mér mjög slæmt þar sem þetta skemmir ímynd litbolta hérna á íslandi og getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, sérstaklega fyrir þá sem verða fyrir skotum. Ég hélt að þetta væri löngu liðið, hef ekkert heyrt meira um þetta og taldi þetta vera eitthvað sem búið var að fást við. Þar til í dag þegar ég frétti að það hefði verið skotið paintball kúlu á húsið mitt seinasta sunnudagskvöld á meðan ég var uppí sveit. Höfðu þá einhverjir á einum bíl eða fleiri verið að bruna í gegnum hverfið (hvort það var eltingarleikur get ég ekki staðfest) og voru á alltof miklum hraða í gegnum venjulegt íbúðarhverfi. Ég vona að ég hljómi ekki einsog gömul kelling kvartandi yfir því að það var skotið einni kúlu á rúðu í húsinu mínu meðan ég var í burtu og engin skemmd, en málið er aðeins alvarlegra en það að mínu mati. Allir aðrir fjölskyldumeðlimir voru heima, þar á meðal 3ja ára systir mín. Skotið var í glugga við hliðina á glugga herbergi systur minnar, og ég veit vel að paintball kúlur geta brotið gler þar sem ég hef spilað paintball sjálfur. Systir mín var sofandi þessa stundina í rúminu sínu og hún hefði vel getað vaknað við skellinn, en það finnst mér ekki skipta máli miðað við að hún sefur undir glugganum og ef kúlan hefði farið í rúðuna þá hefði hún vel getað brotnað og glerbrot rignt yfir. Ég er ekkert að sækjast eftir neinum nöfnum á þeim sem gerðu þetta né að ég hef eitthvað að segja persónulega við þá sem voru að skjóta, ég vil bara vekja athygli á þessu máli og fá fólk til þess að standa saman á móti rangri notkun litbolta merkjara. Ég er feginn að ekki fór verr en ef þetta heldur áfram þá mun koma að því að eitthvað slæmt gerist, málið er bara hvort við viljum gera eitthvað í því ÁÐUR en það gerist.