Linux er stýrikerfi.
Þú hefur eflaust heyrt að með Linux fylgi hinn og þessi hugbúnaður, meðal annars ágætis gluggaumhverfi og eitthvað… sem er kjaftæði, vegna þess að Linux sjálft er um 500-1000KB á venjulegri PC tölvu.
Linux er semsagt… kjarninn í kerfinu. Linux er UNIX-afbrigði, sem þýðir að þú keyrir meira eða minna allan hugbúnað sem þú almennt keyrir á UNIX, á Linux.
Þú hefur eflaust heyrt um UNIX kerfi. Í dag eru til skrilljón afbrigði af UNIX, það sem ég í þessum pósti mun kalla UNIX-afbrigði. HP-UX er eitt, Solaris er annað, BSD er enn annað, og ásamt trilljón öðrum, er Linux.
Ég nenni ekki alveg að rekja alla söguna á bakvið Linux hérna, en ef maður ætlar ekki að vera bókstaflegur má segja að Linux njóti þessarra vinsælda sökum samhæfni og auðveldleika. Það eru til mörg UNIX kerfi sem eru betri en Linux í hinum ýmsu hlutum, en Linux-stýrikerfið sjálft er yfirleitt hluti af Linux “distróum”, sem ég ætla í þessum pósti að kalla Linux-útgáfur.
Gott dæmi um Linux-útgáfu er Red Hat. Annað er Slackware. Annað er Debian. Það eru semsagt til margar útgáfur, og flestar eru þær misjafnar og hafa sína kosti og galla. Red Hat til dæmis er langvinsælast, og þá líklega vegna þess að Red Hat hefur alltaf þróast í það að verða auðvelt í uppsetningu og notkun.
Það eina sem kjarninn sjálfur gerir í raun, er að tala við vélbúnaðinn í tölvunni þinni. Linux er líka vinsæll kostur vegna þess að það er frítt og opið. Hver sem er getur hrært í kjarnanum á Linux, en ekki til dæmis HP-UX. Þetta gerir það líka að verkum að Linux er tiltölulega auðvelt að færa yfir á allskonar hugbúnað, til dæmis Macintosh tölvur, Atari og Amiga tölvur, allskonar UNIX box og Gyðjurnar mega vita hvað annað.
Í stuttu máli er Linux áhugaverkefni þúsunda manna sem margir hafa laggt sitt af mörkum við að bæta Linux pííínupons, og útkoman er mjög hröð og stöðug þróun, því að margt smátt gerir eitt stórt.
Svo að hvað er Linux? Ég er ekki viss um að þú sért neinu nær eftir þennan lestur, en í því tilfelli mæli ég bara með því að þú prófir þetta. :) Fyrir nýliða er hið geysivinsæla Red Hat einmitt ágætis kostur. Ekki taka samt Caldera eða OpenLinux. Þú lærir ekkert á þeim.