Ég skal byrja á að svara nokkrum af þessum spurningum, ég get því miður ekki svarað mikið varðandi leikina þar sem að ég spila þá sjaldan í PC tölvu. Ég skal samt segja það sem ég hef heyrt út undan mér og það sem ég tel.
1.Ef ég fengi mér linux væri ég þá meða betra FPS í leikjum? Og virkar linux með öllum leikum?
Varðandi FPS þá myndi ég ekki halda það því maður þarf oftast að notast við gervil (að reynaað íslenska orðið emulator). GNU/Linux kerfi virkar líklegast ekki með öllum leikjum en mörgum af þeim stærstu. Gervlar (emulators) sem hægt er að nota eru t.d. Wine og Cedega og það er hægt að sjá “compatibility” lista yfir þá með því að einfaldlega leita að því á Google eða annarri leitarvél.
2.Virka MSN og Opera/Firefox með linux?
MSN “protocollið” hefur verið afturverkfrætt (OK… íslenska virkar ekki alltaf - reverse engineered) og flest öll spjallforrit (Instant Messaging forrit) hafa stuðning fyrir MSN, nema þau séu að sérhæfa sig í öðrum protocollum eins og t.d. frjálsa og opna staðlinum Jabber. Besta forritið sem líkist mest og hefur flestar nýjungar sem sjálft MSN Messenger forritið hefur er aMSN (Alvadaro's MSN).
Opera vafrinn er gefinn út fyrir öll stýrikerfi og virkar stórvel. Firefox er líklegast þekktasti vafrinn innan frjáls hugbúnaðar þótt að þekktustu skjáborðsumhverfin (GNOME og KDE) bjóði sína eigin vafra (Epiphany og Konqueror). Plugin vafrana er oft leiðinlegt vandamál þar sem að ekki allir gefa út plugin sem styðja GNU/Linux kerfi.
3. Sleppur maður vil alla vírusa?
Auðvitað sleppur maður ekki við alla vírusa, en aftur á móti eru miklu minni möguleikar á að tölvan smitist. Fyrir það fyrsta eru ekki svo margir vírusar til sem eru gerðir til að ráðast á GNU/Linux kerfi og svo er öryggis- og rétthafakerfið í GNU/Linux (og öllum UNIX) kerfum miklu þægilegra.
4. Er þetta þægilegt í uppsetningu og einfald við notun?
Ég hef ekki notast við Microsoft Windows í nokkur ár núna og ég sakna einskis. Mér finnst uppsetning og viðhald á GNU/Linux kerfi miklu þægilegra heldur en það var á Microsoft Windows þegar ég notaði það. Það eru margar ástæður (of margar fyrir þetta svar) en svona stiklað á stóru er það þrennt sem mér finnst þægilegra. Í fyrsta lagi fær maður næstum allan þann hugbúnað sem maður þarf við uppsetningu á sjálfu stýrikerfinu (vafri, ritvinnsluforrit, myndvinnsluforrit, tölvupóstforrit o.s.frv.). Í öðru lagi eru næstum því öll forritin ókeypis og frjáls sem gerir það að verkum að maður brýtur ekki höfundarréttarlög (og öðlast þar með sálarró). Í þriðja lagi hefur viðhaldið á kerfinu tekið stórfenglegum framförum á síðustu árum. Flest öll distró hafa núna internetvædda uppsetningu og viðhald og halda utan um ógrynni af forritum sem notandi getur sett inn. Segjum sem svo að mig langi til að setja inn skákforrit. Það er þá forrit til þar sem ég get leitað að “chess” og eftir að hafa skoðað niðurstöður vel ég forrit (segjum GNUchess) og ýti svo á install (mismunandi eftir distró).
Ég held að GNU/Linux kerfi séu jafn auðveld við notkun og Microsoft Windows kerfi (ef ekki auðveldari) um leið og maður hefur lært á kerfið. Auðvitað tekur það tíma að læra á GNU/Linux, eins og það tók tíma að læra á Microsoft Windows þegar maður sá það fyrst. Ég held samt að þegar maður hefur lært undirstöðuatriðin þá fljóti allt áfram. Svo er maður endalaust alltaf að læra eitthvað nýtt því uppfærslur koma með stuttu millibili og maður getur alltaf kafað dýpra.
5. Hvaða Linux er best fyrir Leiki og MSN (ef það virkar) og er það líka þægilegt?
Það er ekkert eitt GNU/Linux distró sem er best fyrir eitthvað ákveðið forrit. Munurinn á distróunum liggur oftast í notendaviðmóti og hvaða hugbúnaður er í boði, hvað er sett upp í upphafi og hvernig það setur upp hugbúnaðinn (í grófum dráttum). Forritin er hægt að keyra og setja upp á flest öllum GNU/Linux distróum.
Ég mæli fyrir þá sem vilja enn spila leiki að setja upp “dual boot” kerfi á tölvunni (bæði GNU/Linux og Microsoft Windows). Það er reyndar ekki auðveldasta uppsetning í heimi (þar sem að þá þarf maður að fara að spá í disksneiðum (partition) og fleira. Svo verður maður að setja upp Microsoft Windows fyrst og svo GNU/Linux þar sem að Microsoft Windows uppsetningin skrifar yfir það sem kallast Master Boot Record og það er næstum ómögulegt að breyta því svo maður geti dual bootað.
Sjálfur mæli ég með Ubuntu eða Mandriva fyrir byrjendur. Það eru þó margir sem myndu líka mæla með Fedora, SuSE eða einhverri af BSD útgáfunum (FreeBSD eða OpenBSD líklegast).
Ég byrjaði með Mandriva (sem hét þá Mandrake), varð fljótt þreyttur á því og vildi læra meira og skipti yfir í Gentoo. Ég hef verið að skoða Ubuntu undanfarið og mér finnst það alveg ótrúlega notendavænt. Mun líklegast setja það upp hjá foreldrunum og öðrum ættingjum þegar ég “laga” tölvurnar þeirra.
Vonandi gat þetta hjálpað þér eitthvað. Endilega lestu þig til á síðum eins og www.linuxquestions.org og www.hugi.is/linux (hér :) ). Svo geturðu google-að eftir distró reviewum og á endanum valið eitthvað sem þér líst vel á.