Jæja, enn einn Windows töffarinn sem ætlar að reyna að ögra Linux-mönnum á rosalega frumlegan hátt. ;)
En jæja, til að svara spurningunni þinni.
Linux hefur mjög margt fram yfir Windows. Það fyrsta er auðvitað að Linux er UNIX-líki, og sem slíkt tekur til fyrirmyndar tækni sem hefur reynst heiminum vel í áratugi, á meðan t.d. Windows virðist ganga bara út á að forrita *eitthvað* sem allra, allra fyrst, algerlega óháð því hvort það sé praktískt eður ei. Sem forritari og kerfiskarl gæti ég bent þér á ótal óendanlega heimskulega hluti við Windows, sem hafa ekki komið leið sinni inn í UNIX-heiminn, vegna þess að almennt eru menn þar að hugsa um annað en að halda í sín 90% markaðarins. Hlutir á borð við öryggi, sparneytni á vélbúnaði og slíkt kemur þar við sögu… hvort tveggja eitthvað sem Microsoft á sér gjörsamlega hægilega sögu af.
Öryggi er alveg sérstaklega stórt mál, og verður stærra og stærra mál með hverjum deginum. Alveg án spaugs og kaldhænði, Microsoft ætti ekki í erfiðleikum með að komast í heimsmetabók Guinness fyrir að framleiða óöruggasta hugbúnað í heimi, og standa að baki heimskulegustu öryggisgöllum fyrr og síðar. Má þar nefna öll þekkt forrit frá þeim, ekki bara Windows. Vírusar í gegnum póst, vefsíður, vefÞJÓNA (for crying out loud), og ritskjöl þóttu brandari áður en Microsoft gerði þá að harmleik.
Frelsi er líka mjög stór þáttur í þessu. Linux er óendanlega sveigjanlegt (bókstaflega), og open-source hugbúnaður yfirhöfuð líka. Það er ekki bara það að geta breytt kóðanum eins og manni sýnist, heldur það að fítusarnir sem fólk vill eru yfirleitt komnir áður en manni hefur dottið þá í hug sjálfum. T.a.m. að geta tekið burt popup-glugga úr vöfrum, haft Perl-plugin í IRC forritinu (án þess að nota eitthvað spes þar-til-gert scripting mál), og fleiri og fleiri dæmi mætti nefna.
Maður hefur oft fundið brilliant hugmyndir og ætlað að búa til eitthvað ofboðslega sniðugt… en þá fundið eitthvert open-source forrit sem er svoleiðis löngu, löngu búið að gera það. Flæði hugmynda er svo miklu, miklu meira.
Það er enginn að nota Linux bara til þess að vera “hip & cool”, ef það er það sem þú ert að gefa í skyn. Eða jú, eflaust einhver, en slíkir eru í hrikalegum minnihluta. Enda myndi satt best að segja enginn nenna því, bara til þess að vera kúl. ;) Afl Linuxs verður ekki óheflað nema maður nenni einhverju og viti eitthvað.
En það er aftur á móti ekki hægt að neita því að Linux distró eru í eðli sínu mun flóknari en Windows. Þetta rekur blessunarlega marga í burtu, enda er þetta ekkert stýrikerfi fyrir fólk sem er sátt við Windows eða MacOS. Markmið Linux-manna er ekki að gera Linux mainstream, andstætt því sem margir halda. Enginn sem er sáttur við Windows eða MacOS, hefur þekkingu eða áhuga á því að nota tölvuna sína í allt sem Linux-menn almennt gera…
…og það er líka bara í besta lagi. :)
Athugaðu líka að Linux er algert örverpi í UNIX flórunni. Það eru til milljón önnur UNIX-byggð kerfi á borð við HP-UX, Solaris, IRIX, FreeBSD/OpenBSD/NetBSD (sem öll eru open-source eins og Linux), BeOS og MacOS X.
Þeir einu sem virðast ekki skilja að UNIX-tæknin er það eina sem hefur sýnst ganga til lengri tíma, eru Microsoft. :) Málið er kannski ekki að Linux sé svo ofboðslega æðislegt (þó það sé það auðvitað), heldur meira hvað Microsoft Windows er alltaf ofboðslega langt eftirá.