Upphaflega þurfti töluvert klára tölvunotendur til að ná tökum á þessu frumstæða og hálfþróaða kerfi, og þarf enn í dag að vissu leyti. En með hverri útgáfu hinna ýmsu Linuxkerfa verður það auðveldara og auðveldara að komast inn í Linux, galdraathöfnunum og kjúklingafórnum hefur fækkað til muna við uppsetningu kerfanna. Og er sem að það sé ekki að gleðja frumkvöðlana sem hingað til hafa dásamað Linux og litið mjög svo niður á Microsoft, Windows, Bill Gates og notendur MS vara.
Einnig verður maður oft var við almenna vanvirðingu gagnvart venjulegum notendum, sem hafa það eina sér til saka unnið að vilja nýta tíma sinn í eitthvað annað en að kynnast tölvum jafn náið og læknir kynnist mannslíkamanum. Orð eins og “luser” (kemur frá því að orðinu user var breytt í loser í gömlum tölvukerfum upp á grínið, en breyttist svo í luser með tímanum) og LART (luser attitude readjustment tool, spýta eða álíka hlutur sem hægt er að banka í fólk með) er oft beitt í gríni en þetta bendir samt á þeirra ákveðna viðhorf til meðalmannsins.
Einnig eru menn farnir að tala illa um ákveðnar dreifingar (distro) af Linux og eru þær næstum því lagðar til jafns við hið “ónothæfa” windows.
Það vita allir sem kynnst hafa windows og Linux að það þarf oft á tíðum ekki jafn nána þekkingu á kerfinu til að gera sambærilega hluti í Windows, sem gæti virst sem hinn mesti svartigaldur í Linux. Þessi einföldun hefur að sjálfsögðu sína ókosti en við förum ekki nánar út í það núna.
En eins og ég sagði áðan, fjöldi “meðalmanna” í Linux eykst með hverri útgáfu og svo virðist sem að sérstaða þess að vera Linux notandi fari minnkandi. Ekki get ég séð það í fljótu bragði að það breyti stýrkerfinu nokkuð, nema til hins betra. En frumkvöðlarnir virðast núna vera að flýja skipið og eru óðum að skipta yfir í BSD kerfi, sem er annað “Unix” kerfi, á sinn hátt frjálsara og oftast erfiðara viðfangs en hinar venjulegu útgáfur af Linux.
Þar komum við að kjarna þessarar greinar. Er þessi háværi hópur “utangarðsmanna” að styðja Linux og allt það sem Linux stendur fyrir efnisins vegna eða er það bara hugmyndin að vera öðruvísi og á einhvern hátt “betri” en meðalnotandinn sem drífur þá áfram? Og er það hin mesta martröð fyrir þá að fá alla “luserana” yfir í Linux til sín? Því það er alveg gefið að þar sem að fjöldi meðalmanna er mikill, þar munu fara fram ákveðin mistök sem valda til dæmis öryggisgöllum og kerfishruni, enda er minnihluti vandræða sem fólk lendir í með Windows kerfinu sjálfu að kenna. Nær alltaf er þetta eitthvað sem fólk hefur gert sjálft. Sama á við um tölvuöryggi. Oftast er hreinlega um vanhugsun að ræða og mun það ekkert breytast þótt fólk fari að nota Linux í gríð og erg.
Oft er hægt að sjá slíka þróun í tónlistinni. Mér er í fersku minni þegar að fólk hlustaði á og dásamaði “jaðarhljómsveitina” REM. Svo kom út lagið Losing my religion sem sló í gegn og kom REM á borðið hjá almenningi. Þá var eins og eldri áhangendur þeirrar hljómsveitar hafi hreinlega afneitað henni og fóru að finna sér eitthvað sem var ennþá meira á jaðrinum og óuppgvötað af almenningi. Það var einfaldlega ekki nógu “svalt” að hlusta á það sama og allir hinir, þótt það sé sama hljómsveitin og hún var í gær.
Nú verður gaman að sjá næstu mánuði og ár hvort að BSD verði ekki “næsta stóra thing” og Linux endi í sama flokki og Windows, því þar sem notendurnir eru, þar vilja þeir “svölu” ekki vera.
Ég vil taka það fram að ég hef notað Linux samhliða Windows í tæpa 18 mánuði, Windows í um það bil 6 ár og tölvur í einhverju formi í tæp 20 ár. Þannig að ég veit örlítið um það sem ég er að segja. Ég hef einstaklega gaman af því að grúska í Linux og að nýta það í þá hluti sem mér finnst það henta mér best í en ég er ekkert á leiðinni að leggja Windows fyrir Linux, eða þá að skipta yfir í BSD því Linux sé ekki nógu “svalt” lengur. Ef ég kíki á BSD (sem ég mun án efa gera einn daginn) þá verður það líklega bara fyrir forvitnissakir.
JReykdal