Ég hef tekið eftir því að Linux veröldin á Íslandi er hálf daufleg. Vissulega er nóg af einstaklingum sem kunna á Linux og þreytast seint á að dásama eiginleika og eðli þessa opna og liðuga kerfis í samanburði við Microsoft. Þó heyrist sjaldan samanburður við önnur kerfi. Ég hef samt ekki séð að þetta sé annað en bylur í t.tunnu, það liggur svo lítið eftir okkur. Ég er sjálfur að keyra bæði Windows og Linux jafnt og þétt og satt að segja stöðugt hrifnari af Uxanum. Get vissulega haldið mína dásemdarræðu um kerfið og svo framvegis, en það bylur samt í minni tómu tunnu.
Hvað um það, mig langar til að opna fyrir eina umræðu sem hefur ásótt mig í svefni undanfarna mánuði.
Skólakerfið eins og það leggur sig er algjörlega andsetið af Windows notkun. Menntamálaráðuneytið og stofnanir því tengdu setja þá stefnu að nota skuli Upplýsingatækni í skólastarfi. Kennarar og stjórnendur skólanna reyna að sinna því kalli en af naumri getu. Getan, eða getuleysið, mótast nokkuð af eftirtöldu:
a. Lítið fjármagn er til að hugbúnaðarvæða tölvukerfi skólanna (jafnvel með skólaleyfum), sérstklega þegar kemur að uppfærslum nýrra kerfa og hvað þá þegar kemur að samanburði sambærilegra kerfa (að kaupa mismunandi útgáfur og prófa). Allir hafa vélbúnað þar er lítill skortur.
b. Kennarar og skólastjórnendur hafa takmarkaða yfirsýn yfir þá möguleika, stefnur og strauma sem eru að gerast og gerjast í UT veröldinni hollt og bolt.
c. Fáir þeirra sem koma nærri þessari þróun (innan skólanna) hafa hingað til þolinmæði né laun sem réttlæta að þeir leiti þeirrar yfirsýnar sem áður er nefnd.
d. Sá skóla- og kennsluhugbúnaður sem er í boði fyrir yngri stigin eru (yfirleitt) þýddar útgáfur af leiðinlegum kerfum sem þróuð voru af norskum og bandarsíkum austurstranda gæjum sem gengu um á flókaskóm kenndu réttritun eða algebru og höfðu lært Visual Basic eða C á háskólaárunum.
e. Það hefur enginn áhuga á menntun nema þeir sem vinna við hana, allir hinir eru uppteknir við að vinna og trúa því ekki að menntun í dag móti það umhverfi sem við lifum í þegar við förum á ellilaun.
f. Þeir skólar sem nennt hafa að þróa UT kennslu og hugfrjóa starfsemi henni tengdri byggja yfirleitt á einum starfsmanni innan þess skóla sem hefur sótt sýna yfirsýn á eigin spítur og er sú starfsemi yfirleitt ekki samræmd því sem gerist annars staðar.
g. Lítið sem ekkert hefur verið rannsakað (hérlendis) hvað hentar námsmönnum (án tillits til aldurs, getu ofl.). Ekkert er vitað hvað hvetur, ekkert er vitað hvað kennir best, ekkert er vitað hvaða tækni virkar til miðlunar á þekkingunni, ekkert er vitað um það hvaða grunn er best að leggja í upphafi, ekkert er vitað um eitt eða neitt.
h. … læt staðar numið hér.
Það sem hefur haldið fyrir mér vöku undanfarnar vikur er þetta: Er grundvöllur fyrir því að opna eins konar vinnustofu sem væri óháð skólunum en í nánu samstarfi við menntakerfi. Hún byggðist á blandi af atvinnumönnum, áhugafólki, starfsfólki menntakerfis og nemendum sem ynni að því að finna þennan flöt.
Vinnustofa sem einblíndi á að nota Linux sem verkvang og „Open Source“ þar sem því er viðkomið til að finna leiðir. Vinnustofa sem virkilega … ja eru einhverjir aðrir en ég sem hefðu áhuga á að sjá Linux sækja í sig veðrið?
Ég sé fyrir mér hugbúnaðarstofu sem prófaði sig áfram við að finna opnar hugbúnaðarlausnir til að sinna þeim markmiðum sem UT stefna menntakerfisins óskar, og leitaði leiða til að miðla með árangri, t.d. með þáttöku valinna skóla sem væru tilbúnir til að taka þátt í rannsóknarstarfi af þessu tagi.
Ef vel tækist til gætum við náð þeim árangri að standa fremst í heiminum á þessu sviði. Við gætum brotið af okkur ok Microsoft, sem var nú ekki að íslenska Windows XP og Office af neinni góðmennsku heldur vegna þess að hið opinbera skrifaði opna ávísun fyrir svo og svo mörgum hugbúnaðarpökkum.
Við gætum náð svo langt að íslenskt UT fólk yrði á næsta áratug eða svo með því færasta sem gerist á norðuhveli jarðar, og með notkun opinna hugbúnaðarkerfa innan Linux fjölskyldunnar.
Er ég sá eini sem hugsar svona?