Afþreyingarmiðstöð fyrir Linux
Eins og flestir vita er samkeppnin mikil á leikjatölvumarkaðnum um þessar mundir, Sony og Sega slást um hylli leikjaunnenda en Microsoft og Nintendo gefa út nýjar leikjavélar á næsta ári. Minna hefur farið fyrir Indrema-leikjavélinni en hún er væntanleg vestanhafs snemma vors á næsta ári. Flestir myndu ætla að lítið þýddi fyrir óþekkt fyrirtæki að gefa út leikjavél á meðan markaðurinn er nánast mettaður og má vera að eitthvað sé til í því. Lögð er áhersla á að Indrema-vélin verði afar vel búin og því má ætla að hún muni höfða til margra þrátt fyrir að nafn hennar sé lítt þekkt. Vélin mun státa af 600 megariða örgjörva, 64 megabæta minni, Nvidia-skjákorti, netspjaldi og allt að fimmtíu gígabæta hörðum diski. Það er sérútbúin útgáfa Linux-stýrikerfisins sem mun sjá um að stýra vélinni en henni mun fylgja mikið af hugbúnaði. Auk þess að geta spilað Indrema-leiki er vélinni ætlað að verða alhliða skemmtanastöð fyrir heimili.

Nettengd og tekur upp sjónvarpsefni
HDTV og Personal Tv-hugbúnaður fylgir Indrema sem getur því tekið upp og sýnt sjónvarpsefni. Vélin verður nettengd, búin vafra sem notast við Gecko-vélina frá Netscape og mun halda utan um mp3 skrár auk þess að spila geisladiska og sýna kvikmyndir með innbyggðu DVD-drifi. Aðeins þetta gerir vélina auðvitað að góðum kosti fyrir þá sem vilja afþreyingu en hins vegar má búast við því að áhugasamir muni hefjast handa við að semja hugbúnað fyrir vélina um leið og hún kemur út. Þar sem hver sem er má þróa hugbúnað fyrir Linux-stýrikerfið þykir víst að fljótt verði fáanlegir hermar sem leyfa eigendum vélarinnar að spila leiki sem gefnir eru út fyrir aðrar leikjavélar og þyrfti því aðeins að kaupa eina vél til að spila alla leiki. Á vélinni verða svo inn- og útgangar fyrir flestar tegundir hljóð- og myndefnis, bæði stafrænir og hliðrænir svo þeir sem hafa kunnáttu og hugmyndaflug ættu að geta látið vélina gera flest það sem við kemur marg- og fjölmiðlun.

Ekki von á vélinni til landsins
Ekki er líklegt að vélin berist hingað til lands á næstunni þar sem hún verður aðeins framleidd fyrir bandarískan markað til að byrja með en vélin kemur út vestan hafs næsta vor og mun kosta um 25 þús. kr. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á vefsíðu fyrirtækisins, indrema.com.