Nýjasta úgáfan af Red Hat er eftir minni bestu vitund, 7.0. Nýjasta útgáfan af Mandrake, er 7.2. Látið ekki tölurnar blekkja ykkur, við vitum öll að þær þýða nákvæmlega ekki neitt.
Nú hef ég notað Red Hat 7.0 nánast frá útgáfu og er orðinn vægast sagt þreyttur á þeim andskota. Ég skrifaði þeim bréf varðandi að ég væri hættur að nota Red Hat út af þessu og hinu.
Það sem mér finnst einkenna 7.0, er að þeir voru greinilega ekkert að vanda sig við þetta. Þeir henda útgáfum út með hugbúnaði í viðurkenndum þróunarútgáfum, sem er viðurkennt að séu ekki stöðugar. Þetta eru vinnubrögð sem svosem má leyfa sér ef maður ætlar að miða eingöngu á alger sauðnaut sem vistþýða (compile) aldrei neitt sjálf og almennt eru bara að prófa Linux í fyrsta skiptið. Við hinir, 90% Linux-menningarinnar á Íslandi, getum samt sem áður yfirleitt sætt okkur við eitthvað af svona vinnubrögðum frá Red Hat. En allavega, ég fékk nóg.
Svo að ég ákvað að prófa Debian. Ég var mjög hrifinn af innsetningunni og allt í góðu með það, en af einhverjum ástæðum neitaði Debian að virkja PCMCIA netkortið mitt, svo að ég varð frá að bregða. Ég leit samt í kringum mig eftir innsetningu, haltur án nettengingar, en ég fann strax merki um fágaðari vinnubrögð og Debian er mjög greinilega fyrir menn sem vita hvað þeir eru að gera, og/eða vilja vita hvað þeir eru að gera.
Allavega, Debian fór út. Ekki fer ég að vinna án þess að vera með IRCið í bakgrunni, glætan spætan, svo að ég set upp Mandrake 7.2. Ég hætti að nota Mandrake í útgáfu 7.0 en hef mikla reynslu af 6.1, 6.2 og 7.0, og var búinn að fá nóg í 7.0, eins og með Red Hat núna. Það var sama sagan, óvönduð og fáránleg vinnubrögð, og öllu hent út um leið og það rétt varð nothæft.
Mandrake 7.2 kom á óvart hvað varðar innsetningarferlið. Í 7.0 kynntu þeir myndæna innsetningarferlið sitt sem var ekki byggt á RH-innsetningunni. Það var svosem ágætt þá, en full böggað. Í 7.2 hafa þeir lagað flest og gert allt mun auðveldara, þó að einstaka galla sé hægt að finna (til dæmis gera þeir ekki alltaf ráð fyrir að notandi ýti á “Cancel”).
En allavega, innsetningin fer í gang, og eins og kunnugir vita er Mandrake byggt á Red Hat, svo að viti menn… Mandrake finnur netkortið mitt, hljóðkortið og skjákortið og allar græjur (sem verður að teljast ágætt á Dell ferðatölvu), og ég fer að litast um eftir RH-kjaftæðinu, og finn ekkert af því.
Mandrake kemur líka með ýmsum forritum og fítusum sem eru ekki að finna í Red Hat, sem og að Mandrake segir notandanum meira, og er skilvirkara á hvað er hvað, hvað maður þarf, og hvað maður gæti viljað hafa líka. Fullt af sniðugu gumsi og bara húrra og hallelúja, Mandrake hefur staðið sig.
Það eina sem ég hef út á Mandrake að setja er að þeir gera ekki ráð fyrir því að maður vilji *ekki* hafa ákveðna hluti, eins og USB. Þetta er auðvitað frekar unpro, að gera einfaldlega ráð fyrir því að notandinn bæði hafi USB og vilji hafa USB, en aftur á móti fara varla margir að setja Mandrake upp á netþjón hvort sem er, svo að ég hugsa að þetta sé í lagi.
Mandrake 7.2 tekur Red Hat 7.0 tvímælalaust í boruna hvað varðar skipulag, auðveldleika og fítusa, en missir nokkur stig fyrir að vera ekki jafn auðvelt að díla við eftirá. Ef notandi ætlar að velja á milli Red Hat 7.0 og Mandrake 7.2, kýs ég hiklaust Mandrake 7.2. Ef, aftur á móti, það er verið að ræða um dreifingu til að setja upp á netþjón, þá get ég ekki einu sinni mælt með öðru hvoru.