Stjörnumerkin okkar
Hrútur - Keppnismaður sem þarf líkamlega hreyfingu og áskoranir
Hrúturinn er tilfinningaríkur og opinskár. Hann er hreinskilinn, einlægur og beinskeyttur. Dags daglega er hann rólegur og jákvæður, en verður kappsfullur og ákafur þegar áhugi hans er vakinn. Hann er drífandi og oft búinn að ljúka af verkum meðan aðrir eru enn að hugsa málið. Hann á til að vera fljótfær og óþolinmóður, ekki síst ef verk sækjast seint eða hann mætir mótspyrnu. Hann á erfitt með að stöðva sig af þegar hann er byrjaður á skemmtilegu verki. Reglur og utanaðkomandi höft eru Hrútnum lítt að skapi, enda vill hann vera sjálfstæður og fara eigin leiðir. Hann er kappsfullur og er maður baráttu og áskorana. Hann þarf líf í umhverfi sitt, hreyfingu og líkamlega útrás, ella verður hann áhugalaus og slappur. Hrúturinn er spretthlaupari og skorpumaður, en líkar ekki við langvarandi vanabindingu. Nýsköpun er lykilorð fyrir Hrútinn og þær plánetur sem eru í merkinu.
Naut - Jarðbundinn framkvæmdamaður sem vill öryggi
Nautið er jarðbundið og staðfast. Það er frekar rólegt og hlédrægt í skapi og líður best þegar öryggi, varanleiki og regla eru á daglegu lífi þess. Nautið er raunsætt, er lítið fyrir að búa til loftkastala, en leggur meira upp úr því að fást við hagnýt mál og ná áþreifanlegum árangri. Það hefur framkvæmda- og skipulagshæfileika. Nautið er þolinmótt og hefur gott úthald en á til að vera þungt og óhagganlegt. Þrjóska er því meðal eiginleika þess. Í eðli sínu er Nautið friðsamt og góðlynt, en er samt sem áður fast fyrir og ráðríkt. Það lætur aðra í friði ef það er látið í friði. Nautið er töluvert nautnamerki og leggur áherslu á þægindi, ekki síst hvað varðar heimili, húsbúnað og mat. Trygglyndi og íhaldssemi eru einkennandi, sem og áhugi á öllu sem er traust, ekta og varanlegt.
Tvíburi - ‘Fjölmiðlamaður’ sem ferðast um og talar við fólk
Tvíburinn er félagslyndur, hugmyndaríkur og fjölhæfur. Hann verður eirðarlaus ef hann er bundinn of lengi á sama staðnum, en líður vel þegar mikið er að gerast og hann hefur mörg járn í eldinum. Hann er forvitinn og fróðleiksfús. Í skapi er Tvíburinn léttur, hress, glaðlyndur og vingjarnlegur. Hann er oft góðlátlega stríðinn. Tvíburinn er merki hugsunar, tjáskipta og upplýsingamiðlunar og hefur ríka þörf fyrir að læra, tjá sig og segja sögur. Lífsstíll hans þarf að einkennast af fjölbreytni, hreyfingu og samstarfi við margt og ólíkt fólk. Hann þykir stundum óstöðugur og óútreiknanlegur, en það er hins vegar í eðli hans að fara víða og hafa frelsi til að kynna sér ólíkar hliðar lífsins.
Krabbi - Tilfinningaríkur ‘íhaldsmaður’ sem ræktar og verndar
Krabbinn er tilfinningaríkur og næmur á umhverfi sitt. Hann er varkár og hlédrægur, er stundum feiminn en getur einnig verið ákveðinn. Hann er séður, hagsýnn og útsjónarsamur. Krabbinn hefur forystuhæfileika og stendur oft framarlega í viðskiptum, stjórnmálum og félagsstarfi. Það er ekki síst vegna sterkrar ábyrgðarkenndar að honum er treyst til forystu. Krabbinn hefur sterka verndarþörf, er umhyggjusamur og barngóður og oft töluverður heimilismaður í sér. Hann er frægur fyrir gott minni, er trygglyndur, áreiðanlegur og íhaldssamur. Hann hefur þörf fyrir öryggi. Í eðli sínu er hann náttúrumaður og ganga niður í fjöru, sund og nálægð við náttúru landsins endurnærir orku hans. Krabbinn hefur sterkt ímyndunarafl og metur menn og málefni útfrá tilfinningalegu innsæi.
Ljón - ‘Kóngur’ sem vill skapa og hljóta athygli
Ljónið er ákveðið og stjórnsamt, en einnig opið, hlýtt og einlægt í skapi. Það er í eðli sínu lifandi og hefur ríka þörf fyrir að vera áberandi og í miðju í umhverfi sínu. Það fer því stundum mikið fyrir því. Þegar það er ánægt geislar af því gleði, en það sýnir einnig óánægju og vanlíðan og á til að vera þungt. Ljónið hefur ákveðnar skoðanir og telur sig oftast vita hvað sé rétt og hvað rangt. Það er lítið fyrir að hlusta á aðra eða slá af sannfæringu sinni. Hið dæmigerða Ljón er orkumikið og hefur getu til að hrinda stórum áformum í framkvæmd, en inn á milli vill það slappa af og njóta lífsins. Verkefni Ljónsins verða að vera lifandi, skemmtileg og skapandi. Það verður að leggja sitt persónulega mark á viðfangsefni sín, annars verður það orkulítið og áhugalaust. Ljónið er stolt og gjafmilt, laðast að því sem er glæsilegt, litríkt og stórt í sniðum. Það er fast fyrir, traust og trygglynt.
Meyja - Fullkomnunarsinni sem þjónar og vinnur að umbótum
Meyjan er samviskusöm og hógvær, en einnig nákvæm og smámunasöm. Hún er dugleg og algengt er að hún sé sívinnandi. Meyjan er jarðbundin, hefur sterka ábyrgðarkennd og vill ná áþreifanlegum árangri. Hún lætur því athöfn fylgja orðum og gengur iðulega vel að fást við hagnýt verkefni hins daglega lífs. Í skapi er hún frekar alvörugefin og tekur viðfangsefni sín hátíðlega. Hún hefur þörf fyrir öryggi og vill hafa röð og reglu á viðfangsefnum sínum, en hún hefur einnig sterka hreyfiþörf og á til að hafa það margt fyrir stafni að hún verður stressuð og taugaveikluð. Þegar það gerist fer oft lítið fyrir “regluseminni”. Hún er gagnrýnin og skörp, en á til að vera of kröfuhörð og vanmeta getu sína. Fullkomnunarþörf getur háð henni, en er einnig styrkur því hún reynir yfirleitt að leysa verk sín vel af hendi. Meyjan er oft greiðvikin og hjálpsöm og hefur sterka þjónustulund. Áhugi á heilsumálum og hollu mataræði er oft áberandi og einnig viðskipta- og tungumálahæfileikar.
Vog - Félagsmálamaður og diplómat sem vill bæta heiminn
Vogin er félagslynd og hugmyndarík. Hún er jákvæð og vingjarnleg og iðulega kurteis, ljúf og þægi-leg í umgengni, enda leggur hún áherslu á samvinnu. Hún er oft ágætur diplómat eða sáttasemjari. Vogin vill vega og meta og sjá fleiri en eina hlið á hverju máli. Hún er því oft sanngjörn og víðsýn, en er stundum lengi að taka ákvörðun og á því til að vera óákveðin. Þegar hún er hins vegar búin að ákveða sig er hún föst fyrir og ósveigjanleg. Sumar Vogir eru ráðríkar, en nota þá bros og rökræðu til að sannfæra aðra um réttmæti skoðana sinna (hin ljúfa frekja). Vogin er oft listræn eða leggur a.m.k. áherslu á að hafa fegurð í umhverfi sínu. Henni fellur illa við grófleika og ósamræmi. Einkennandi fyrir Vogina er sterk réttlætiskennd og það er helst að hún reiðist þegar hún sér aðra beitta órétti. Hún stendur því oft framarlega í baráttu fyrir réttlætismálum. Voginni fellur best að fást við huglæga vinnu og hefur hæfileika til að taka frumkvæði á félagslegum sviðum og láta samvinnu ganga vel.
Sporðdreki - ‘Valdamaður’ á braut sálræns þroska
Sporðdrekinn er næmur tilfinningamaður. Hann er dulur í skapi og frekar varkár. Í framkomu er hann oft rólegur og yfirvegaður, þó að undir niðri ólgi sterkar tilfinningar. Sporðdrekinn á til að vera yfirþyrmandi, stjórnsamur og skapstór. Hann er fastur fyrir og ósveigjanlegur þegar grunnhugmyndir hans eru annars vegar. Hann er oft öfgafullur eða er a.m.k. ekki maður hálfvelgjunnar. Sporðdrekinn hefur hæfileika til að rannsaka og kryfja mál til mergjar. Hann er oft ágætur mannþekkjari og skynjar innri líðan fólks og sér í gegnum yfirborðsmennsku. Vegna næmleika síns þarf hann að draga sig annað slagið í hlé. Viss einvera er honum því nauðsynleg. Sporðdrekinn hefur sterkt ímyndunarafl og á til að magna sig upp, gera úlfalda úr mýflugi og rífa sjálfan sig og aðra niður eða búa til aukaorku þegar á þarf að halda. Stjórnunarhæfileikar, hreinskilni, seigla og úthald eru meðal eiginleika hans.
Bogmaður - ‘Landkönnuður’ í leit að þekkingu
Bogmaðurinn er fjölhæfur og lifandi. Hann er léttur, hress, jákvæður og bjartsýnn í skapi og að öllu jöfnu frjálslyndur og víðsýnn. Hann er leitandi, forvitinn og fróðleiksfús. Hann þarf að hreyfa sig og koma víða við. Áhugi á ferðalögum er m.a. einkennandi. Bogmaðurinn þolir illa vanabindingu og vanastörf og verður eirðarlaus eða fær innilokunarkennd ef hann er bundinn of lengi yfir sama verkefninu eða er fastur á sama staðnum. Útivera á vel við hann og nauðsynlegt er að vítt sé til veggja og hátt til lofts þar sem hann dvelur. Algengt er að Bogmaðurinn hafi áhuga á íþróttum en einnig er til heimspekilega sinnuð útgáfa af merkinu. Bogmaðurinn er töluverður lífslistamaður. Hann vill horfa á jákvæðari hliðar tilverunnar og kann að láta sér líða vel. Hann er sagður heppinn og er orsaka þess líkast til að leita í því að hann er opinn fyrir nýjum tækifærum og er jákvæður og fordómalítill.
Steingeit - Skipuleggjandi sem þrífst á ábyrgð
Steingeitin er jarðbundin, raunsæ, hagsýn og skipulögð. Hún vill ná áþreifanlegum árangri og hafa röð og reglu á lífi sínu. Hún hefur sterka ábyrgðarkennd, er dugleg og vandvirk og að öllu jöfnu áreiðanleg. Steingeitin hefur tilhneigingu til að taka á sig ábyrgð vegna vinnu sinnar eða fjölskyldu og virðist oft telja að illa fari ef hún slaki á klónni. Hún er alvörugefin og frekar varkár og á til að vera stíf, en notar iðulega ‘húmor’ til að létta lundina. Steingeitin er íhaldssöm, vill öryggi og varanleika og er lítið fyrir að breyta til breytinganna vegna. ún leggur töluvert uppúr hefðum og heimili og fjölskyldan skipta hana miklu. Hún er metnaðargjörn og stjórnsöm, þó hún neiti því iðulega sjálf, og hefur hæfileika til að taka frumkvæði á skipulags- og verkstjórnarsviðum margs konar. Í eðli hennar er ríkt að byggja upp og leggja ekki nýjan stein fyrr en sá næsti á undan er vandlega festur.
Vatnsberi - Hugsuður sem vill frelsi, yfirsýn og framfarir
Vatnsberinn er sjálfstæður og “óáþreifanlegur”, maður hugmynda og sérstöðu. Hann er oft félagslyndur, en vill samt vera óháður og fara eigin leiðir (félagslyndur einfari). Hann laðast að því sem er öðruvísi og oft er sagt að hann sé á undan samtíð sinni. Í framkomu er hann að öllu jöfnu yfirvegaður, kurteis og þægilegur. Hann er stoltur og lítið fyrir að bera persónuleg mál sín á torg fyrir aðra. Vatnsberinn leggur áherslu á að skynsemi stjórni gerðum sínum og vill halda umhverfinu í ákveðinni fjarlægð, m.a. til að hafa yfirsýn og til að halda í frelsi sitt. Hann þolir ekki afskiptasemi og á sjálfur til að vera hlutlaus, ópersónulegur og afskiptalaus. Hann hefur oft sérstakar skoðanir á lífinu og tilverunni og er fastur fyrir og fastheldinn í viðhorfum. Hann á því til að vera sérvitur. Vatnsberinn er oft fróðleiksfús, hefur áhuga á þekkingu og vill framfarir og úrbætur. Hann hefur sterka réttlætiskennd.
Fiskur - Óútreiknanlegur, fjölhæfur og draumlyndur ‘heimsmaður’
Fiskurinn er næmur tilfinningamaður, oft þægilegur og lipur í framgöngu. Hann hefur sterkt ímyndunarafl og á auðvelt með að setja sig í spor annarra. Hann er skilningsríkur, ef hann kærir sig um, en á einnig til að lifa í eigin heimi og taka eftir því sem hann vill sjá. Hann er að mörgu leyti óútreiknanlegur og getur ýmist verið mjúkur og eftirgefanlegur eða fjarlægur og sjálfstæður. Fiskurinn fórnar sér stundum fyrir aðra, en er einnig útsjónarsamur og kann að sæta lagi og spila á aðstæður sér í hag. Hann verður oft víðsýnn með aldrinum. Vegna sterks ímyndunarafls á hann til að vera utanvið sig og gleyminn, týna hlutum eða taka ekki eftir nánasta umhverfi. Áhugi á velferðar- og menningarmálum, tónlist, kvikmyndum, bókmenntum og andlegum málum er áberandi hjá mörgum Fiskum. Almennt má segja að Fiskurinn sé fjölhæfur. Hann á því stundum erfitt með að nýta hæfileika sína eða ‘fókusinn’ á eitt ákveðið og getur því fengist við margvísleg störf.