Ég hef alltaf litið á mig sem hardcore gamer, týpuna sem kann virkilega að meta tölvuleiki og sekkur sér ofan í þá, og mér líst hreinlega ekki á hvert stefnir fyrir okkur. Leikjaframleiðendur virðast búnir að snúa baki við okkur, sem komum þeim á kortið, og eru farnir að einbeita sér að einfeldningunum sem vita varla hvað þeir eru gera í tölvunni.
Gott dæmi um þessa þróun er útgáfa Wii-smábarnatölvunnar. Þessi “leikjatölva” (sem er ekkert annað en Gamecube 1.5 með stýripinna sem þú sveiflar) er holdgervingur þeirrar uppljómunar sem leikjaframleiðendur hafa greinilega fengið: Þeir græða miklu meira á að selja heilalausum (og ungabörnum) rusl en að gera metnaðarfulla leiki fyrir kröfuharða spilara sem kunna virkilega að meta tölvuleiki. Það ætlar enginn að segja mér að neinn metnaður hafi verið lagður í gerð Wii Sports. Ég hef ekki prófað hann, en ég gæti eflaust búið til svipað tech-demo og þessi “leikur” er á einum eftirmiðdegi.
Þegar ég sest fyrir framan 52" plasmasjónvarpið í leikjaherberginu mínu (já, ég er með leikjaherbergi) þá er ég ekki bara að leita mér að quick fix af skemmtun eða einhverju til að drepa tímann. Ég ber of mikla virðingu fyrir tölvuleikjum sem listformi til þess. Ég kynni mér hvert og eitt smáatriði í leiknum sem ég spila, reyni að læra hann inn og út, og virkilega skilja hann. Skilja hvað hann stendur fyrir, og hvað hann er að reyna að segja mér.
Undanfarin ár finnst mér eins og hardcore gamers eins og mér hafi stórlega fækkað. Æ minni vinna er lögð í nýsköpun og frumlegheit, og fókusað frekar á einfaldleikann. Rétt eins og að kasta perlum fyrir svín er dýrmætum þróunartíma eytt í einfeldningaleiki eins og Wii Sports, Wii Play, Super Mario Galaxy, Mario Kart, Metroid Wii og hvað þetta heitir nú allt. Og slefandi einfeldningarnir, þeir sem hugsa “Vá hvað þetta er gaman! Ég sveifla prikinu og kallinn hreyfist! Hahahahaaaaa!” lepja þetta upp sem veldur því að enn fleiri leiki fyrir einfeldninga eru gerðir. Þetta gerir mig reiðan.
Sem alvöru leikjaunnandi finnst mér ég eiga meira skilið að hafa gaman af tölvuleikjum en börnin, gamalmennin og fábjánarnir inn á milli sem vita varla hvað þeir eru að gera. Hvað tölvuleikjaspilun varðar er ég betri en þetta fólk. Og á ég það ekki skilið að vera hunsaður.
Nintendo eru vitanlega heillum horfnir, enda búnir að uppgötva að með því að hætta allri nýsköpun og höfða til barnanna er hægt að græða mest. En ég bið til guðs að Sony og Microsoft, einu fyrirtækin sem virðast þora að taka áhættu og gera skapandi hluti, fylgi ekki í humáttina. Ef það gerist deyja tölvuleikir í því formi sem þeir eru.