Tölvuleikir fyrir PlayStation 2 (PS2) leikjatölvuna frá Sony eru sagðir hafa slegið við leikjum fyrir GameCube frá Nintendo og Xbox frá Microsoft í sölu á tölvuleikjum fyrir leikjatölvur frá 2.-15. desember. Fram kemur á cnet.com að átta af 20 söluhæstu leikjunum, að mati NPD Intelect, séu fyrir PlayStation 2, þar af eru fimm leikir fyrir PlayStation 2 á meðal tíu söluhæstu leikjanna. Fjórir leikir á listanum voru frá PS one, fjórir fyrir Game Boy Advance og tveir fyrir GameCube. Einn leikur fyrir Game Boy Color og einn fyrir Xbox komust á listann. Söluhæsti leikurinn var hins vegar Grand Theft Auto 3 fyrir PS2 frá Take-Two Interactive.
Fram kemur í könnun NPD að þrír af fjórum Xbox-leikjum, sem voru meðal söluhæstu leikjanna í nóvember, hafi ekki komist inn á listann í desember. Eini leikurinn sem hélt velli var Halo frá Microsoft. Samkvæmt könnun NPD komust sjö nýir leikir inn á listann yfir 20 söluhæstu leikina.
Xbox og GameCube komu á markað um miðjan nóvember, en Game Boy Advance kom út í júní. PS2 kom á markað í nóvember 2000 og sala á Game Boy Color hófst í janúar 1999. PS one leikjatölvan var hins vegar upphaflega sett á markað árið 1995.