Sælir strákar,
Það er kórrétt. Við kaupum leikina og tölvurnar frá Svíþjóð. Verðin okkar stýrast mikið til af því. Álagning okkar á leikjunum er alls ekki há - og nánast engin af vélunum sjálfum. Hvað Brain Training og Big Brain leikina varðar þá eru þeir reyndar ódýrari en aðrir leikir hjá okkur, n.t.t. 3.490 og 3.590 tilsvarandi. Flestir nýir leikir kosta um 4.590 en það skekkir e.t.v. myndina að við erum enn með leiki á verðum sem við fengum þegar gengið var hagstæðara, þá yfirleitt 3.990. Þessir tilteknu leikir eru hlutfallslega ódýrari í BNA t.d., heldur en hér í Skandinavíu. Við erum með sömu álagningu á þessa leiki og aðra, svo að söluverðið er í beinu hlutfalli við kostnaðarverðin frá Svíþjóð. Það er víst eins með Nintendo og t.d. myndavélar, sjónvörp o.fl. að við getum oft lítið keppt við verðin á Bandaríkjamarkaði, þar sem þeim er sérstaklega stýrt og óheimilt að selja beint þaðan til okkar. Við gerum hvað við getum, í þessum málum.
En hvað buxnaupphysjun snertir… Vandamálið hefur kannski verið hvað fólk hefur verið stífgirt, frekar en hitt. Nú erum við hinsvegar að yngja svolítið upp hjá okkur, bæta við mönnum sem áhuga hafa og vit á þessum bransa og setjum markið sífellt hærra. Þessa stundina erum við að bæta í auglýsingar (t.d. í Sambíóunum einmitt) og leikjaframboð hægt og rólega, en fyrst og fremst erum við að undirbúa komu Wii.
Enn geri ég ráð fyrir, þó ég hafi engin skýr svör þess efnis, að hún lendi í nóvember. Hafið þó engar áhyggjur af því, það mun ekki fara framhjá neinum þegar hún kemur í hús. Sjálfur fer ég að verða allt að því fanatískur áhugamaður um Wii (þessi pæling er bara svo ótrúlega skemmtileg!) og get ekki ímyndað mér annað en að hún marki nýtt upphaf fyrir Nintendo. Þá er eins gott fyrir okkur hjá Ormsson að vera vel með á nótunum - og það skulum við verða. Þetta verður partí.
Svo vil ég endilega að þið hafið samband við okkur með athugasemdir ykkar. Ýmis orð og dómar hafa fallið um starfsemi Ormsson nýverið. Sumt á vissulega rétt á sér en við viljum, frekar en að fólk sé með getgátur og spurningar án svara, að þið talið beint við okkur - í það minnsta til að byrja með. Okkur gefst ekki alltaf færi á að skima yfir umræðuvefina en ef þið sendið ykkar spurningar og athugasemdir á nintendo@ormsson.is, munum við taka mark á þeim og svara eftir fremsta megni. Þá bið ég ekki um annað en það sé allt haft á málefnalegu nótunum.
Að því sögðu, þá skulum við bara hafa gaman af þessu!
Með kveðju og von um gott samstarf,
Jón Eðvald Vignisson
Sölumaður, hljómtækja- og tölvudeild
Ormsson ehf.
Síðumúla 9
108 Reykjavík