Sony hefur gefið út upplýsingar um næstu útgáfu PlayStation leikjatölvunnar og er ljóst að þar verður ógnaröflugt tæki á ferðinni. Reiknigeta tölvunnar verður 2 TeraFlops, sem er 35-föld reiknigeta PlayStation 2 og um það bil tvöföld reiknigeta Xbox 360, sem Microsoft hyggst setja á markað í haust.
PlayStation 3 verður með tvo öfluga örgjörva. Aðalörgjörvinn er nýr af nálinni og kallast Cell, en hann var hannaður af IBM, Toshiba og SCEI. Hann verður með sjö kjarna og keyrir hver kjarni á 3,2 GHz. Samhliða þessum örgjörva verður sérstakur grafíkörgjörvi hannaður af Nvidia sem mun ráða við hágæða myndupplausn.
PlayStation 3 verður jafnframt með 256 MB vinnsluminni og önnur 256 MB af skjáminni. Leikjatölvan mun verða með þrjú Ethernet-tengi, þráðlaust net og Bluetooth, sex USB 2.0 tengi og hólf fyrir minniskort af algengustu gerðum. Diskaspilarinn mun nota hina nýju Blu-ray tækni sem Sony hefur unnið að síðustu ár, en Blu-ray diskar geta rúmað allt að 50 GB af gögnum. Spilarinn mun þó líka geta spilað hefðbundna CD- og DVD-diska, þannig að hægt verður að spila leiki sem hannaðir voru fyrir PlayStation 1 og 2 leikjatölvurnar.
Áætlað er að PlayStation 3 komi út á fyrri helmingi næsta árs, en ekki er vitað hvað hún muni kosta.