Nintendo á, eins og er, handleikjatölvumarkaðinn (fjúff, langt orð), og þrátt fyrir að Sony eigi eftir að koma sterkir inn þá efast ég um að Nintendo eigi eftir að endurleika Ninteno 64 leikinn og missa stöðu sína sem leiðandi framleiðandi handleikjatölva. Nintendo DS hefur nú þegar verið seld í meira en milljón eintökum á tveimur vikum sem verður að teljast ansi gott fyrir grip sem kostar 150 dollara úti í næstu búð. Fyrir utan það þá bíða meira en ein og hálf milljón forpantana í viðbót eftir að verða afgreiddar.
Nintendo DS var gefin út í síðustu viku í Japan. Upphaflega ætluðu þeir ekki að dreifa nema 300.000 stykkjum en vegna gífurlegrar eftirspurnar neyddust þeir til þess að senda gripinn í fjöldaframleiðslu á einum stað til viðbótar og á útgáfudag voru 500.000 stykki til sölu í verslunum. Sony munu hins vegar ekki eiga nema 200.000 eintök af vél sinni þegar hún kemur á markað í næstu viku (12. desember) og sér hver heilvita maður að það er hreinlega ekki nóg til þess að halda uppi samkeppni í kringum útgáfu. Talið er að viðskiptavinir muni kaupa eina vél ef það eru ekki til eintök af hinni. DS hefur augljóst forskot hvað framboð varðar.
Rafhlöðuending er eitt sem að Sony PSP mun koma til með að minnka vinsældir PSP. Ken Kutaragi, forstjóri Sony, segist vera fullviss um að líftími rafhlaðna á Sony PSP muni lengjast eftir því sem lengra líður frá útgáfu, en staðreyndin er að það er orðin nokkur stöðnun í rafhlöðuþróun og í rauninni er það orðið þannig núna að í staðinn fyrir að sá tími sem tekur að hlaða rafhlöðu styttist í staðinn fyrir að líf hennar lengist. Opinberar tölur herma að PSP endist ekki nema í 4-6 tíma í notkun, og þá er ekki miðað við að hljóð sé í botni, heldur aðeins í 50% (endingin sem sagt styttist ef þú hækkar í hljóðinu).
Það hefur verið ljóst síðan Sony kynnti vélina sína að gripurinn myndi geta spilað bíómyndir á UMD sniði. En hvaða áhrif hefur það? Miðað við hversu illa ferðamynddiskaspilurum hefur gengið að klifra upp vinsældastigann, þá sé ég ekki hvernig Sony PSP eigi að geta komið lífi í þann markað. Í það minnsta geta ferðaspilararnir spilað DVD myndirnar sem þú kaupir úti í búð, þær sömu og þú getur horft á í sjónvarpinu. Þú getur hvorki horft á UMD myndir í sjónvarpi né í ferðaspilara, einungis á PSP.
PSP spilar einnig tónlistarskrár. En hefur það einhver áhrif? Skrárnar verður að spila af MemoryStick, en kortið sem fylgir tölvunni er 32mb að stærð og stærri kort geta kostað sitt. Hvers vegna ætti Hr. Meðaljón að kaupa sér PSP, nýtt minniskort svo hann komi fleiri lögum inn á það, í staðinn fyrir að kaupa sér sérhæfðan MP3 spilara á lægra verði? Hann gæti fengið sér 256MB minnislykil á 11.990 krónur í BT. Venjulegt 256MB MemoryStick kostar 12.990 krónur á sama stað. Þú getur rétt ímyndað þér hvað MemoryStick DUO kostar í 256MB útgáfu.
Kostnaður á MemoryStick DUO fælir Hr. Meðaljón einnig frá því að kaupa sér stærra kort í því skyni að hlaða niður prufuútgáfum leikja og fleira í þeim dúr af netinu yfir á PSP tölvuna. Nema þú viljir halda öðru fram, hr. fanboy?
Og hvað er þá eftir? Tölvuleikirnir. Því miður hafa fáir áhugaverðir leikir látið sjá sig á listum yfir tilkynnta leiki. Sá eini sem ég get nefnt í augnablikinu er Metal Gear Acid. Ástæðan fyrir því af hverju þessir leikir vekja ekki upp neina hrifningu hjá mér er einfaldlega sú að ég get spilað nákvæmlega eins leiki og PSP er að bjóða í PS2 tölvunni minni. Það eru kannski ekki sömu leikirnir, en engu að síður þá er spilunin sú sama. Sony eru ekki að koma með neitt nýtt með Sony PSP, þeir eru einungis að bjóða upp á það sama i smærri útgáfu.
Ég skrifa þetta ekki til þess að sýnast vera einhver Nintendo fanboy (eins mikill og ég er, sérstaklega þegar það kemur að handleikjatölvunum). Ég mun kaupa mér Sony PSP einn daginn, þegar fjöldi góðra leikja á hana er kominn í sæmilega tölu og það fer að verða þess virði að kaupa gripinn, en þangað til mun ég halda mig við Nintendo DS tölvuna mína. ;)