Þetta er tekið af mbl.is


Ný Game Boy-leikjavél er væntanleg

Japanski tölvuleikjaframleiðandinn Nintendo hyggst senda frá sér nýja útgáfu af Game Boy Advance, en nýja vélin er væntanleg á markað í Evrópu í lok mars. Vélin mun heita Game Boy Advance SP, en hún er hönnuð í ljósi kvartana sem bárust frá notendum GBA.
Í GBA SP verður ljós við brún skjásins sem gerir notendum kleift að sjá betur á skjáinn við mismunandi birtuskilyrði. Þá mun Nintendo láta framleiða endurhlaðanlegar rafhlöður fyrir GBA SP, en rafhlöðurnar gera notendum kleift að spila í 10 klukkustundir samfleytt ef ljósið er notað á vélinni, en 18 klukkustundir samfleytt að öðru leyti.

Þá verður nýja vélin smærri í sniðum en eldri útgáfur. Fram kemur á zdnet.co.uk að nýja vélin sé að svipaðri stærð og smádiskaspilari, en GBA SP er 84,6 mm x 82 mm að stærð og vegur 143 grömm.