Nú á að sjálfsögðu að kenna tölvuleikjum um þessa leyniskyttu sem gengur laus í Maryland og Virginia. Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var talað um það að hugmyndin að þessum morðum væri hugsanlega fengin frá ofbeldisfullum tölvuleikjum, sem m.a.s. fengjust á Íslandi (voðalega hneykslanlegt) og nefndi fréttakonan sérstaklega Hitman 2 sem hún sagði að væri nánast eins og þessi morð þarna úti og þýddi hún nafn leiksins yfir á íslensku sem “Leyniskyttan 2”, þó að hitman þýði að sjálfsögðu leigumorðingi en ekki leyniskytta.

Það er augljóst að sá sem stendur á bak við þessi morð er enginn unglingur sem hefur verið að leika sér í tölvuleikjum og dottið í hug að gera svona í alvörunni, þetta er e-r þrautþjálfaður maður. Öll fórnarlömbin hafa verið skotin með einu skoti sem bendir til þess að hann sé afar góð skytta, hann hefur skilið eftir nánast engar vísbendingar og honum hefur augljóslega alltaf tekist að komast undan þrátt fyrir að lögreglan loki strax af viðkomandi svæðum. Mér finnst ekki ólíklegt að þessi maður hafi jafnvel hlotið þjálfun í hernum, allavega ekki af tölvuleikjum.

Þessi árátta fjölmiðla um að kenna tölvuleikjum um svona ofbeldi er ákaflega þreytandi, það er augljóst að stór félagsleg vandamál eiga meiri sök á þessu líkt og með skotárásir í skólum. Rannsóknir hafa líka sýnt að börn og unglingar geri sér ávallt grein fyrir því að tölvuleikir eru ekki raunveruleiki.
jogi - smarter than the average bear