Leikjatölvur í dag eru orðnar ansi magnaðar og farnar að ráða við ýmsa hluti sem áður fyrr voru ekki einu sinni í ímyndum leikjaframleiðenda. En einhverstaðar varð þetta að byrja. Ég ætla ekki að tala um hvar upphaf ákveðinna leikjategunda var eða hvernig ákveðin fyrirtæki hófu rekstur sinn heldur hvernig ég byrjaði minn “feril” sem leikjatölvueigandi og unnandi. Ég ætla í raun að þylja upp í “stuttu máli” minn feril og hvað ég hef átt, eða brot af því. Stiklað á stóru takið eftir…

Þetta hófst c.a 1986-1987 þegar ég var að leika mér með mín fyrstu Nintendo tölvuspil. Þessi svokölluðu Game & Watch tölvuspil. Hver man ekki eftir þessum klassísku tölvuspilum? Þetta var það sem mig hlakkaði mest til við að fara til útlanda. Fríhöfnin og fá sér Game & Watch! Það var mesta kickið við utanlandsferðir! Skítt með hitt, ég var nottla bara krakki! Maður gat setið tímunum saman við að leika sér með simple tölvuspil. Þetta var allt saman svo einfalt. Stjórnun var einföld, grafík var einföld en samt svo spennandi. Þið sem ekki kannist við þetta hafið ekki verið nógu lengi í bransanum. Mig hefur lengi langað að finna gömlu tölvuspilin mín aftur og prófa, ég átti nefnilega slatta af þeim. En því miður veit ég ekki um þau! Mér til mikillar skemmtunar þá sagði kærastan við mig í vor “Ég á svona Donkey Kong heima” og ég auðvitað VARÐ að skoða það. Tölvuspilið var enn í orginal kassanum, með leiðbeiningum og með ÖLLU nánast. Þetta var snilld! Ég varð reyndar smá svekktur með að batteríið var ekki lengur í lagi en mörg ár eru nú liðin síðan það var notað síðast þannig að…

En mín fyrsta leikjatölva var Nintendo Entertainment System (NES) sem ég man nú ekki nákvæmlega hvenær ég eignaðist. Mínir fyrstu leikir voru auðvitað Super Mario Bros og Duck Hunt. Þvílík snilld! Einnig eignaðist ég fljótlega furðulegan skotleik sem nefndist Gum Shoe minnir mig. Sá leikur var aldrei vinsæll hjá mér en alls ekki leiðinlegur. Einnig man ég mjög eftir Ikari Warriors, Probotector, Super Mario bros seríunni og vá ég gæti svo sem talið endalaust en ég ætla ekki að gera það. Sá leikur sem ætti kannski að fá hvað mest hrós er Mario Bros 3! Pjúra SNILLD! Það sem mér þótti alltaf svo rosalega flott við NES var fjarstýringin, hún þótti voðalega þægileg og snyrtileg en væri ekki upp á marga fiska í dag, það eru flestir sammála um það. En hún dugði í gamla daga og þá hlýtur hún að duga á gömlu leikina! Einnig man ég rosalega eftir öllum auka fjarstýringunum sem ég átti. Svona flugvélastýripinni, arcade stýripinni og allt mögulegt.

Ég kynntist síðan alveg nýrri hlið á NES tölvunni minni þegar ég lét “breyta” henni þannig að ég gat spilað import leiki. Það var nokkuð skemmtilegt skal ég segja ykkur. En samt var alltaf einn galli. Ég átti erfitt með að skilja enskuna þá en guð minn góður, japanskan var ekki skárri! Þó eignaðist ég marga leiki frá japan sem komu seint hingað eða jafnvel aldrei. Svo að ég kynntist import hliðinni á leikjatölvum mjög snemma. Með orginal NES(PAL) og import (NTSC) sem og safnleikjum þá átti ég vel rúmlega 300 stykki. Mikið væri ég glaður ef ég mundi finna þá alla aftur. En ég efast um að ég geri það. Þeir hurfu margir þegar ég flutti 1995 :( Mig grunar að þeim hafi verið stolið úr búslóðargeymslu en svo getur vel verið að þeir séu einhverstaðar úti í skúr. Hver veit?

Á þessum tíma kynntist ég einnig SEGA tölvunum. Sega Master System var sú sem var á sama tíma og NES og áttu nokkrir vinir mínir þessa tölvu. Mér fannst hún ágæt en samt ekki eins spennandi og NES. Það var eitthvað sem vantaði fannst mér. Ég er svo sem búinn að gleyma hvað það var en ætli það sé ekki Miyamoto-magic? Það vita það allir sem hafa alist upp við Nintendo hvernig það er að fá nýjan Nintendo leik, þ.e frá þeim sjálfum. Það eru einhverjir töfrar á bakvið leikina. Ég er samt alls ekki að segja að SEGA leikir séu slæmir, alls ekki. Ég skemmti mér konunglega í Sega Master System.

Sú tölva sem gerði mig endanlega að Nintendo-guy var auðvitað Super Nintendo Entertainment System (SNES). Ég man alltaf þegar ég keypti hana í Fríhöfninni og kom með hana heim. Hafði keypt nokkra leiki úti í Hollandi. Svo sem Final Fight, Probotector og Street Fighter II. Svo fylgdi líka Super Mario World með, sá var ekkert nema meistaraverk! Á þessum tíma þá áttu margir vinir mínir Sega Genesis og mér fannst, eins og með Master System, eitthvað vanta uppá. Miyamoto-magic again? Það var bara eitthvað við Super Nintendo sem mér fannst æðislegt. Ég gleymi ekki þegar ég kveikti á henni fyrst og fór í SMW og mér fannst grafíkin svo geðveik. Ég átti ekki til orð. Þegar ég fattaði að það var hægt að láta sig hverfa með því að halda niðri krossinum á svona hvítum fleti, vá. Mér fannst það vera kraftaverk! Svo nokkrum tímum seinna setti ég Probotector í, ég var mikill Probotector fan á sínum tíma (Hint: mætti gera nýjan þannig leik, FPS?). Grafíkin í þeim leik var eins og bara í kvikmynd (miðað við standard þá). Rosalega flott að sjá flamethrowerinn og svo hékk maður í þyrlu og allt. Úff. Fyrir þá sem ekki vita þá er Contra eiginlega það sama og Probotector. Munurinn er að í Probotector þá eru robots en í Contra þá eru humans. Final Fight var auðvitað arcade leikur frá A til Ö og fílaði ég hann alveg í botn. Street Fighter II. Tja, þarf að segja eitthvað? Þetta er sá leikur sem er hvað langlífastur og sennilega vinsælasta slagsmálasería frá upphafi.

Í Super Nintendo átti ég einnig Super Scope sem var einskonar Bazooka í Nintendo stíl. Frekari útskýring, Bazooka-light-gun! Leikirnir í hana voru ágætir. Voru minnir mig 5-6 í einu leikjahylki. En því miður var miðið frekar brenglað í byssunni og mín reynsla var sú að ef maður hreyfði sig úr stað þá var miðið farið til fjandans. Einnig átti ég Turbo stýripinna þar sem maður gat stjórnað hraða högga, t.d Turbo þá kýldi maður á “Turbo hraða” og svo var slo-mo takki. Geðveikt á sínum tíma!

SNES er líka fyrsta leikjatölvan sem kom með Shoulder Buttons, það er R og L. Fjarstýringin var einnig mjög þægileg. Féll vel í lófa og hafði nægilega marga takka. Frumkvöðull í fjarstýringum.

Jæja svo liðu árin og SNES lifði vel. Var mest selda tölvan um allan heim og ég man alltaf eftir viðræðunum milli Nintendo og Sony um að gera geisladiskadrif fyrir SNES. Þær viðræður urðu að engu og Sony ákváðu að gera eigin leikjatölvu en ég kem að henni hérna rétt á eftir, hef þetta bara sem lokin á Super Nintendo tímabilinu.

Mín næsta tölva var svo Nintendo 64. Ég átti blöð í tonnatali og á sennilega enn einhverstaðar, um Nintendo Ultra, eins og hún átti víst að heita. Ég man þegar ég las um tölvuna, sá hvað hún átti að geta og gat gert. Ég var agndofa. Ég átti ekki orð yfir þessari æðislegu grafík. Á undan Nintendo 64 höfðu Sony Playstation komið og Sega Saturn. Saturn var ágætis tölva. Hver man ekki eftir Panzer Dragon og NiGHTS? Auðvitað var Sonic á sínum stað sem og á Master System og Genesis. En til mikillar ólukku þá seldist Saturn ekki nógu vel og þeir tóku hana af markaðnum. Sony Playstation var að taka þetta með of stórum hvelli. Nintendo þrjóskan í mér var það mikil að ég vildi ekki fá mér Playstation strax. Ég varð að bíða eftir Nintendo Ultra! En svo var ég að skoða eitt blaðið og sá að nafni tölvunnar var breytt! Sem og logoið! HA?! Nintendo 64? Hvaða asnalega N er þetta? blátt, rautt, grænt og gult þrívíddar N? Mér fannst þetta ferlega asnalegt fyrst þar sem ég var búinn að venjast Ultra merkinu. Ég skal reyna að finna það einhvern tíman og senda það inn á Myndakubbinn! :) En jæja, tíminn leið og loks kom Nintendo 64. JEI! Super Mario 64 var frumkvöðull í þrívíddar platformleikjum og margir vildu meina að svona yrðu leikir í framtíðinni. Þá áttu þeir við frjálsleikann og ævintýraheiminn. Það var auðvitað satt. Lítið á alla þessa þrívíddar ævintýra/platformleiki í dag. Ég eignaðist líka Pilotwings 64 sem og Star Wars leikinn fyrsta. Það var rosalega gaman. Aldrei hafði ég séð eins raunverulegt landslag eins og í Pilotwings. Og að geta flogið um allt frjáls sem fugl var STÓR bónus. Stórt skref í átt að frjálsri stjórnun í leikjum. Nintendo 64 var að mörgum talin vera “flopp” en í sannleika sagt er það alls ekki satt. Á hana komu leikir sem voru groundbreakers. Zelda: OoT, Super Mario 64, GoldenEye, Pilotwings, Perfect Dark, Banjo Kazooie (Jak & Daxter anyone?), Blast Corps (ekki margir sem þekkja hann kannski) og fleiri leikir. Það voru kannski mistök hjá Nintendo að hafa hana cartridge tölvu en ekki geisladiska eins og Saturn og Playstation voru nú þegar. Einnig settu þeir of miklar hömlur á leikjaframleiðendur þannig að margir fældust frá þeim. Square á meðal þeirra. Final Fantasy byrjaði nú hjá Nintendo!

Einnig komu þeir með ferska hugmynd inn heim fjarstýringa. Það var analog stýripinninn. Einnig var hægt að nota C takkana til að stjórna myndavélinni í t.d Mario 64 og var það alveg stórmerkilegt. Einnig var merkilegur takki undir fjarstýringunni, Z. Hann var notaður sem target takki í Zelda: Ocarina of Time og hafa margir leikir notað það system. Það er kallað Z-targetting og er mjög áhrifamikið. Bardagakerfið í Zelda:OoT er eitt það skemmtilegasta sem sést hefur. Fátt skemmtilegra en að dansa í kringum óvininn og berja hann í rassinn með trésverði!

Jæja ég gafst upp. ÉG FÉKK MÉR PLAYSTATION! Aðallega fyrir Gran Turismo og svo GT2. Mér fannst alltaf frekar skrítin en samt flott grafík í PSX. Kubbuð en samt mjög djúp. Grafíkin fannst mér ekki alveg jafn smooth og sú sem var í N64 enda eru þær mjög ólíkar. Ég eignaðist nú svo sem ekki marga leiki í PSX, aðallega bílaleiki. GT, GT2, Driver, Colin McRae 2.0 og TOCA leiki. Eins og með SEGA tölvurnar fannst mér eitthvað vanta. Miyamoto-magic again! Sem harður Nintendo fan var ég vanur að spila leiki eftir Meistara Shigsy þannig að PSX var ekki beint my type of system. Mér fannst oft leikirnir vera gerðir bara til að vera gerðir. Fannst ekki vera sál í leikjunum sem einkenna Shigsy svo mikið. En samt skemmti ég mér konunlega í PSX. Sé ekki eftir að hafa keypt hana og mun ekki losa mig við hana. Ég reyndar seldi frænku minni hana fyrir nokkra þúsund kalla í fyrra en nýverið hirti ég hana aftur! Frekjan í mér!

Fjarstýringin í PSX er skemmtileg, ég á nú bara Dual Shock og fannst mér shoulder takkarnir sniðugir. Kannski full mikið af þeim. Líka sniðugt að hafa 2 analog takka.

Jæja hvað fékk ég mér næst? Fyrstu “Next-gen” tölvuna sem var Sega Dreamcast. Fyrsti leikurinn var House of the Dead 2 sem var skotleikur og notaðist við Light gun. Grafíkin var rosaleg! Einnig eignaðist ég SEGA GT, Deadly Skies og Soul Calibur sem er að mínu mati besti bardagaleikur sem komið hefur! Get ekki beðið eftir SC2! Stýripinninn fannst mér frekar hallærislegur. Alltof stór og klunnalegur en memory cardið var sniðugt. Skjárinn gaf ýmsar upplýsingar. Sem dæmi í NBA2K þá sá maður stamina leikmanna á skjánum sem og SLAM DUNK þegar þeir tróðu. Skemmtileg nýjung. En því miður þá ákváðu SEGA að draga Dreamcast út úr keppninni og eru hættir sem leikjatölvuframleiðandi og einbeita sér einungis að leikjaframleiðslu. Þeir framleiða núna á allar tegundir leikjatölva. Hvort sem þú átt GameCube, Playstation 2 eða Xbox, þá geturðu eignast SEGA leik og eru þeir margir mjög góðir!

Eins og ég sagði þá er fjarstýringin í DreamCast frekar klunnaleg að mínu mati. En hefur sínar góðu hliðar. Eins og með Memory Cardið. Analog takkinn er ágætur en R og L takkarnir eru líka mjög skemmtilegir. Pressure sensitive og læti…

Playstation 2 kom á markað og aftur var það þrjóskan í mér sem vildi ekki kaupa hana strax! En svo var mér gefið PS2 + Gran Turismo 3, vá þvílík hamingja! GT3 var svo yndislegur leikur og er enn að ég get ekki lýst því. En jæja, ég hef nú eignast fjölbreittari leiki á PS2 en PSX. Sem dæmi á ég Jak & Daxter, Silent Hill 2, NBA Street, Half-Life, WRC og Red Faction bara svo eitthvað sé nefnt. Skemmtileg tölva sem er með fjöldan allan af leikjum, en misgóðir eins og í allar tölvur.

Fjarstýringin í PS2 er nánast sú sama og Dual Shock fjarstýringin í PSX nema hvað að takkarnir eru pressure sensitive og mér fannst það sniðugt í t.d GT3. Ýta aðeins inn bensíninu og maður gat stjórnað hraða bílsins þannig. Ekki bara ýti mishratt á bensínið til að stjórna hraða inní beygjur. Loksins!

Jæja! Ég viðurkenni það að PS2 var einungis upphitun fyrir GameCube! Að mínu mati takið eftir! GameCube kom í evrópu þann 3 maí síðastliðinn og guð minn góður. Þvílíkur draumur! Þvílík SMÆÐ! Merkilega lítil og skemmtilega útlítandi tölva! Djörf hönnun og samkvæmt tæknigúrúum er hún hvað best hönnuð tæknilega séð. En ég veit ekkert um það hehe. Leikirnir eru svo polished og fallegir að það er ekki með orðum lýsanlegt finnst mér. Fyrsti leikurinn minn var Luigi´s Mansion, ætlaði að fá mér Rogue Leader fyrst en hann kom ekki til landsins 3 maí! Andsk… En jæja, LM var mjög litríkur og flott gerður leikur. Rosalega flott að sjá transparent drauga um allt og special effects og lighting effects voru mjög vel gerð í LM. En mitt fyrsta jaw-drop var Star Wars: Rogue Leader. VÁ! Sú grafík er bara nánast eins og að horfa á bíómyndirnar! Merkilega vel gert og vel nýtt. Sá leikur sem mér hefur hins vegar fundist skemmtilegastur so far er Super Smash Bros melee. SJIBBÍ! Ekkert smá gaman að buffa Ganondorf með Mario eða Samus Aran. Multiplayer möguleikinn er líka svo þéttur að það er ekki eðlilegt! Ég þarf ekkert að skrifa meira um þann leik, þið þekkið hann!

Fjarstýring GameCube er með ólíkindum þægileg! Fellur svo vel í lófa og er öll svo soft. R og L takkarnir eru þeir bestu sem hafa verið á leikjatölvum. PS2 og GC fjarstýringarnar eru smá líkar í útliti en GC fjarstýringin er MUN betri hvað varðar þægindi og aðgengileika takka.

En jæja, þetta er mín leikjatölvu saga og minn ferill í stuttu máli. Stuttu máli? Jæja, þið skiljið mig! Þetta hefði getað verið MUN lengra hefði ég nennt því! Þetta er það löng grein hjá mér að í fyrsta skipti er ég kominn með verulega þreytu í puttana. Er farinn að leiðrétta meira en ég skrifa hehe. En jæja, komið með ykkar brot af því besta og segið ykkar sögur, gaman að heyra sögur frá ykkur! ATH: ég var orðinn það þreyttur í höndunum að það getur vel verið að staðreyndarvillur og stafsetningavillur sé innan greinarinnar :) Afsakið það!

jonkorn
Þetta er undirskrift