Nýjasti leikurinn í TOCA touring car seríunni frá Codemasters er væntanlegur fyrir PS2, XBOX og PC. Race Driver, eða Pro Race Driver eins og hann er stundum titlaður, er kappaksturshermir sem bregður all hressilega út af vananum. Leikurinn hefur söguþráð sem snýst um það hvernig aðalpersónan, Ryan McKane, tekst á við feril sem atvinnuökumaður. Ryan er undir mikilli pressu frá fjölskyldu sinni sem er þekkt í kappakstursheiminum fyrir annað en að tapa. Faðir hans er gömul kappaksturshetja, og eldri bróðir hans, Donnie, á sömuleiðis góðu gengi að fagna í kappakstri.
Ryan hefur á brattan að sækja, og örlög hans í kappakstursheiminum eru í höndum spilara.
Eitthvað er um ‘cutscenes’ í leiknum, en reynt er að hafa þau ekki of löng. Til þess að aðstoða við gerð þessara videobrota voru fengnir sjóaðir Hollywood framleiðendur frá Paramount Studios, og óvenjulegar aðferðir voru notaðar við gerð þeirra. Hreyfiupptakan (motion capture) fer þannig fram að atriðin eru sett upp, með öllum leikurum, og hljóðið tekið upp samtímis hreyfingunum. Venjulega er aðeins tekinn upp einn leikari í einu og hljóðið tekið upp eftir á. Sami hreyfiupptöku búnaður er notaður og í Final Fantasy: The Spirits Within kvikmyndinni, og ekki er leiðum að líkjast.
Mjög hefur verið vandað við hljóð leiksins, og alvöru touring keppnisbílar voru notaðir við upptöku á vélarhljóðum. Þeim var komið fyrir á svokölluðum Dyno bekkjum, sem notaðir eru til hestaflamælingar, og þeir síðan þandir í allt að 200 kílómetra hraða á klukkustund. Tekin voru upp vélarhljóð á öllu snúningssviði bílanna og við raunverulega mótstöðu.
Raunveruleg stjórnun og hegðun bíla hefur lengi verið aðalsmerki Codemasters, og ýmislegt hefur verið bætt frá fyrri Toca leikjum. Snögg og ófyrirsjáanleg yfirstýring var ofboðslega erfið að höndla og stundum þreytandi í Toca 1&2, en endurbætur hafa verið gerðar á handling kerfinu fyrir Pro Race Driver.
Ég hlakka mikið til, því að Toca 1&2 voru í miklu uppáhaldi hjá mér á sínum tíma. Við skulum bara vona að söguþráðurinn skemmi ekki leikinn.
Útgáfudagur í evrópu er áætlaður 27. ágúst eftir því sem ég kemst næst.