Prufan sem að ég prófaði er demo úr demo-diski OPM2 og í þessari prufu fær maður að stjórna Lt. Jimmy Patterson í gegnum annað borð leiksins, eða öllu heldur part af borði nr. 2 í leiknum. Borðið er þetta týpíska WWII borð þar sem að maður þarf að komast að kafbátahöfn og laumast um borð á þýskum U-bát.
Nú fyrst þegar að ég prófaði demóið var orðið þó nokkuð langt síðan að ég hafði spilað Medal of Honor leik á leikjatölvu. Ég spilaði og kláraði Medal of Honor I á sínum tíma og hafði gaman af en missti af titli númer tvö eða Medal of Honor: Underground. Svo leið tíminn og ég prófaði MoH: AA á PC sem að var hin besta skemmtun en hafði ekki tilfinninguna sem að fyrsti MoH leikurinn hafði gefið mér. Þannig að ég var spenntur fyrir því að prófa þennan leik.
Til að byrja með að þá tók það mig smá tíma að venjast stjórninni á leiknum, ekki að hún sé eitthvað frábrugðin því hvernig aðrir FPS leikir stjórnast á console heldur var ástæðan sú að ég var ekki búinn að fara í FPS leik á PS2 í nokkra mánuði (ég á Timesplitters og Red Faction), en þegar að ég var búinn að venjast stjórninni gekk þetta allt eins og vel smurð vél.
Tónlistin í leiknum ásamt hljóðbrellunum er undursamlega gert og finnst manni alveg eins og maður sé sokkinn djúpt inní bardagann sem að reyndar kemur mér að næsta punkti mínum og það er hversu djúpt maður sekkur í leikinn.
Það sem að kom mér mest á óvart í sambandi við þetta demó var hversu mikið andrúmsloft EA hefur náð að koma í leikinn. Ég lifði mig algjörlega inní leikinn og á tímabili var ég við það að hrópa skipanir til hinna hermannanna sem að voru þarna að hjálpa mér.
Grafíkin í leiknum er alls ekkert umkvörtunarefni og er sýnir hún mjög vel hversu mikil vinna var lögð í hana.
T.d. þá er staður í borðinu þar sem að maður þarf að nota M40 vélbyssu sem að Þjóðverjarnir hafa skilið eftir og á maður að nota hanan til þess að skýla vinveittum hermönnum. Maður byrjar að plaffa á Þjóðverjana en það myndast svo mikill reykur af byssupúðrinu að maður á erfitt að greina milli vina og fjandmanna.
Gervigreindin í leiknum er líka frábær en óvinirnir fela sig bakvið veggi og aðra hluti til þess að skýla sér og nota allskonar taktík til þess að drepa mann. Í einu tilvikinu var ég uppí kirkjuturni á meðan að samherjar mínir voru að reyna að gera það sama frá jörðu niðri. Í öllum glundroðanum sem að ríkti þá tók einn Þjóðverjinn eftir því að það var einhver uppí þessum turni að skjóta á þá og tók uppá því að skjóta á mig í staðinn fyrir að skjóta á hina hermennina sem að voru líka að skjóta á hann. Þetta fannst mér sýna að upp að einhverju marki geta þeir metið hættu og hegðað sér eftir því.
Það er ekki mikið sem að ég hef að segja um galla sem að ég rakst á í demóinu en þeir eru nokkrir.
Gervigreindin í leiknum er frábær meirihlutann af tímanum en það koma upp andartök þar sem að óvinahermaður stendur varla meira en fimm til tíu metra frá manni á opnu svæði og tekur ekki eftir manni. En sem betur fer gerðist þetta alls ekki oft.
Annað er það, að stundum var eins ég var að skjóta í loftið eða á hlut nálægt mér jafnvel þótt að miðið var stillt á Þjóðverja, þetta gerðist einkum ef ég stóð nálægt skriðdreka og fannst mér þetta vera eins og kassinn sem að afmarkar skriðdrekann í leiknum hafi verið stærri heldur en að skriðdrekinn sýnir.
Annað atriði sem ég reyndar tók ekki eftir í fyrstu er að frame-ratið droppar töluvert stundum og getur það verið þónokkuð pirrandi.
Svo að loka kvörtunar efninu sem að er það að á einum tímapunkti festist ég þegar að ég var að beygja mig og hvernig sem að ég reyndi þá gat ég ekki staðið upp, svo fór ég yfir einhverja brú og þá fyrir einhverja töfra datt ég í gegnum brúna og sveif í lausu lofti yfir vatninu…..þetta skildi ég ekki alveg.
Ef að EA hefur náð að laga þessi vandamál fyrir útgáfudaginn 7.júní (skil samt ekki afhverju þeir geta ekki gefið hann út þann 6.júni sem að er 58 ára afmæli frá því að Innrásin í Normandý var gerð) að þá höfum við klassa leik til að spila í sumar.
Ykkar Chimpatan.
—————————-