Project Gotham Racing var einn af útgáfuleikjum Xbox leikjavélarinnar og hefur fengið mjög góða dóma fyrir bæði grafík og spilun.
PGR er svolítið sérstakur, og í rauninni er ekki hægt að líkja honum við neitt annað en fyrirrennarann, Metropolis Street Racing, sem kom út á Dreamcast sálugu. Leikurinn blandar saman spilanagleði og hasar arcade bílaleikja, og raunverulegri stjórnun og alvöru bílategundum sem oftar má finna í alvörugefnari bílaleikjum.
Það sem leikurinn gengur út á eru svokölluð Kudos stig, sem hægt er að vinna sér inn með því að aka með stíl, slæda í beygjum o.fl. Kudos stigin safnast upp og eftir að ákveðnum stigafjölda er náð færðu bíl eða annað að launum. Þrautir leiksins byggjast að mestu leiti upp á að keyra braut á sem stystum tíma og ná sem flestum Kudos stigum í leiðinni.
Brautirnar í leiknum eru 200 talsins í 4 borgum. Borgirnar eru: New York, London, San Fransisco og Tokyo, og er þeim skipt niður í mislangar bautir. Hægt er að vinna sér inn svokallað Free Roam mode þar sem hægt er að vafra um borgirnar þverar og endilangar án hindrana. Þetta er eitthvað sem ég hef verið að bíða eftir lengi, leik þar sem hægt er að keyra frjálst um alvöru borgir á alvöru bílum.. nammi.
Bílarnir sem hægt er að velja um eru 29 talsins:
Mini Cooper S
Toyota Mr2 Spyder
Mercedes SLK320
VW Beetle Rsi
Audi TT Roadster
Audi TT Coupe
BMW Z3 Roadster 3.0i
Mazda RX8
Chevrolet Camaro SS
Porsche Boxter S
Opel Speedster
Ford Focus Cosworth
Mitsubishi Lancer Evo 7
Panoz Esperante
Nissan Skyline GTR
Subaru Impreza WRX
Lotus Exige
Ferrari F355 Spider
Ferrari F355 F1
Aston Martin Vanquish
Chevrolet Corvette Z06
Delfino Feroce
Ferrari 360 Modena
Ferrari 360 Spider
TVR Tuscan
Dodge Viper RT/10
Porsche 911 GT2
Porsche Carrera GT
Ferrari F50
Bílarnir líta raunverulega út, þétt módel og nákvæm hlutföll.
Til að byrja með er aðeins hægt að velja um þrjá bíla, en hægt er að vinna sér inn fleiri í mismunandi hlutum leiksins:
Quick Race- Stutt keppni gegn bílum af svipuðu leveli. Skiptist upp í Easy, Medium, Hard og Very Hard.
Arcade Race- Hér verður þú að ná ákveðið mörgum Kudos stigum á tilsettum tíma.
Kudos Challenge- Mismunandi þrautir. 4-8 þrautir í hverju af 12 borðum.
Time Attack- Frjáls tímataka á braut að eigin vali.
Medal Pursuit- Hér er hægt að vinna sér inn flottari liti á bílana sína, keppnisútlit eða einfaldlega metallic lakkáferð.
Multiplayer- Allt að 4 geta spilað saman.
Frekar auðvelt er að vinna sér inn fyrstu bílana, en leikurinn verður töluvert erfiðari þegar lengra er komið. Hvatningin er samt til staðar, því nóg er af bílum sem hægt er að vinna sér inn. Maður hefur það á tilfinninguni að alltaf sé eitthvað að gerast, stöðugt nálgast maður lyklana af F355 Ferrariinum og nóg er af skemmtilegum bílum til þess að leika sér á í millitíðinni. Leikurinn telur líka kílómetrana og heildar tímann sem spilað hefur verið. Þegar ákveðnum kílómetra eða klukkutímaáföngum er náð færðu verðlaun, t.d. nýja aksturshjálma eða fleiri brautir. Þetta heldur manni við efnið og það er sífelld hvatning til að spila meira, stöðugur prógress í leiknum.
Grafíkin er sú besta sem sést hefur í bílaleik hingað til, lýsing og texturar í hæsta gæðaflokki og rennslið mjög gott.
Spilunin er mjög skemmtileg líka, AI keppendurnir beita bolabrögðum ef þeir þurfa og stundum verða harðir árekstrar og jafnvel árekstrahrúgur.
Keppnirnar eru mjög hraðar, sérstaklega þegar í alvöru sportarana er komið, og lítið má útaf bera til þess að málin klúðrist.
PGR hefur svolítið sem fáir bílaleikir sem innihalda alvöru bílategundir státa af, en það er að bílarnir geta skemmst. Þeir klessast reyndar ekki alveg í köku, en ljós brotna og boddíið beyglast og rispast.
Hegðun bílanna er til fyrirmyndar, hjólin læsast ef gjöfinni er sleppt of harkalega í miðri beygju og lift-off yfirstýring er raunveruleg. Tilfinningin fyrir þyngd bílsins er góð, en það er eitthvað sem fáir bílaleikir hafa náð að gera nógu vel.
Ég er mjög ánægður með Project Gotham Racing. Leikurinn bíður uppá raunverulegan akstur á raunverulegum bílum í raunverulegum borgum þar sem stig eru veitt fyrir að aka eins og fífl. Góð formúla!