Alla tíð hafa leikjatölvur Nintendo haft framúrskarandi leiki til að hvetja viðskiptavini þegar þær hafa verið að koma á markaðinn. Mario-leikirnir hafa þá alltaf verið þar fremstir í flokki, en í þetta skiptið er aðstaðan ögn öðruvísi: Mario er hvergi sjáanlegur.
Í Luigi's Mansion leikurðu Luigi (Yngri bróður Mario, fyrir þau sem ekki vita). Luigi hefur unnið risastórt setur í keppni sem hann man ekki einu sinni eftir að hafa tekið þátt í. Hann kemst fljótlega að því að húsið er bara gildra, en tekst að forða sér undan draugunum sem virðast standa bak við keppnina. Luigi þarf nú að bjarga Mario frá draugunum með hjálp prófessorsins E. Gadd.
Til þess að sigra draugana þarf Luigi að berjast við þá. En þó ekki á neinn venjulegan máta; hann fær sérhannaða ryksugu, Poltergust 3000. Með henni getur hann sogað upp drauga og eytt þeim. Stjórnkerfið er ekki alls ólíkt leikjum eins og Ape Escape; annar analog takkinn er notaður til að hreyfa Luigi, en hinn til að stjórna ryksugunni og vasaljósinu. Einnig getur Luigi tekið upp peninga og fjársjóði sem hægt er að nota til að “kaupa” leynifítusa.
Luigi's Mansion hefur fengið fína dóma fyrir flotta grafík og andrúmsloft, og kemur út í Evrópu þann 3. maí.