Um daginn keypti ég leik sem ég hef beðið frá því ég frétti af honum fyrst. Fyrir tíma Playstation 2. Þannig að þó svolítið hefði skyggt á eftirvæntinguna lét ég mig hafa það og skellti mér á eitt eintak.
Og hann er í raun betri en ég hafði ímyndað mér - greinilega vel biðinnar virði.
Wipeout er, fyrir þá sem ekki vita, framtíðarkappaskur á svifflaugum sem svífa um á 800-2300 kílómetra hraða, útbúnar vopnum til að klekkja á andstæðingum. Þeir hafa fylgt Playstation frá upphafi, og áttu vissan þátt í að koma henni almennilega inn á kortið - sumir segja að það sé leikurinn sem gerði það að spila tölvuleiki “kúl”. Leikirnir eru gerðir af leikjafyrirtækinu Psygnosis sem keypt var af Sony en í Wipeout Fusion hefur nafnið Psygnosis verið lagt niður og fellt alveg inn í Sony sem studio Liverpool af Sony Europe.
Í upphafi leiksins getur maður að spila í “arcade” ham þar sem maður velur sér borð og reynir að fá gullmedalíu (fyrir að vera fyrstur áð sjálfsögðu) - og innan hvers borð eru 3 brautir og maður kemst ekki á næstu fyrr en maður hefur klárað þá fyrri og andhverfu hennar (“inverse”). Og það eru 8 borð, þannig að það er nóg að gera!
Einnig getur maður valið “challenge” ham sem gengur út á það að fá aðgang að “ofurvopni” hvers liðs fyrir sig. Eins og áður sagði hefur maður vopn til að stöðva aðra keppendur en auk þeirra hefur hvert lið sitt ofurvopn sem er öflugara og að sjálfsögðu sjaldgæfara.
Og svo er “ag league” hamur þar sem maður keppir í eiginlegum “mótum” þar sem gefin eru stig fyrir hvaða sæti lent er í og hversu mörgum andstæðingum maður stútaði í keppninni (að sjálfsögðu deyr enginn). Hér fær maður peninga fyrir hverja keppni sem maður getur notað til að uppfæra skipið sitt - sem kemur eiginlega í staðin fyrir hraðaskiptu riðlana í fyrri leikjum - þegar maður er búinn að uppfæra nógu mikið breytir skipið um útlit og þá verða öll skip sem maður keppir við af sama stigi, þ.e. erfiðari. Hér færðu einnig aðgang að öðrum liðum með því að keppa við aukaflugmann þess liðs, en í upphafi hefur maður aðeins aðgang að þremur - Feisar, Van-Uber og G-tech (arftaka AG-systems).
Í upphafi var ég efins um gæði leiksins þangað til ég fattaði að bensíngjöfin er analog - það er að því fastar sem maður heldur takkanum inni, því hraðar fer maður - þá fór ég að uppgötva leikinn. Spilunin er mjög góð, það tekur ekki langan tíma að komast upp á lagið með þann mikla hraða sem maður er á, og mesta gamanið er auðvitað þegar maður er kominn á ofurhraða og rekst ekki á neitt - æðislegt fyrir hraðafrík! Borðin eru listilega sköpuð, bæði hvað varðar fegurð og uppbyggingu - í sérstöku uppáhaldi hjá með mér er þriðja braut Indónesíuborðsins - rauðlitur himinn og pálmar og brautin liggur á einum stað niðrá hafsbotn og tekur nokkrar skrúfur annarsstaðar - mjög gaman. Einnig stendur uppúr þegar maður stekkur fram af fjalli í öðru borði og sér þá yfir allt borðið og borgina sem það er í ;)
Eftir að hafa náð ákveðið langt kemst maður í “Zone” ham sem gengur út á það að svífa á stíghækkandi hraða gegnum borð eins lengi og maður getur án þess að fylla upp skjöldinn (orkuna).
Síðar fær maður “Time Trial” ham þar sem keppt er um besta tíma í hverri braut - en hvað svo? Ekki kominn það langt enn. En þessi leikur býður upp á mun lengri spilunartíma en aðrir leikir gera nú til dags (afhverju er hægt að klára flesta þeirra á þrem dögum?) og ég mæli eindregið með honum. Verður líklega einn bestu leikur þessa árs.
Og ekki er hægt að enda þetta án þess að nefna hönnun leiksins. Fyrstu þrjá leikina hefur hönnunin verið í höndum <a href:“www.thedesignersrepublic.com”>The Designer's Republic</a> sem
hafa einnig verið Íslendingum kunnigir fyrir að hanna flest hjá Warp Records, þar á meðal heimasíðu þeirra og flesta Aphex Twin og Autechre diskana. Þeir stóðu sig frábærlega, og sárnaði mér þegar ég heyrði að eitthvað fyrirtæki sem heitir “Good Technology” hefði tekið við stöðunni - en þeir standa sig vel og auka svolítið ferskleika leiksins. Hönnun skipanna er skemmtileg breyting þó ýmislegt sé “dæmigerðara” hvað tölvuleiki varðar.
Kíkið á <a href:“www.wipeoutfusion.com”>www.wipeoutfusion.com</a> til að vita meira.
Einnig er hægt að sjá gagnrýni á <a href:“www.gamespot.co.uk”>gamespot-uk</a>.
~cucula