Hönnunaraðili: Neversoft
Uppruni: Bandaríkin
Útgefandi: Activision
Útgáfuár: 2001
Tegund: Íþróttaleikur
Fjöldi spilara: 4
Ég var í Skífunni í dag og var svo heppinn að vera fyrstur til að leggja hendur á PlayStation 2 PAL útgáfuna af Tony Hawk's Pro Skater 3.
Eitt vil ég benda á áður en ég lýsi leiknum nánar. PSX og PS2 útgáfurnar eru verulega ólíkar. Það eina sem þær hafa sameiginlegt er tónlistin, borðin og persónurnar. En þar endar það.
THPS 3 er án efa einn fallegasti leikur sem ég hef augum litið. Þegar persónan dettur koma oft blóðblettir á brautina, og hreyfingarnar eru mjög raunverulegar þegar hún dettur og stendur upp. Þeir sem að hafa spilað fyrri leikina munu umsvifalaust kannast við stjórnina.
Neversoft hafa ákveðið að snúa baki við hinu alræmda peningakerfi sem að notast var við í THPS 2. Í staðinn þarf nú að leita að táknum og hlutum sem gefa manni fleiri stig, hæfileika og ný bretti. Einnig eru komin leynispólurnar komnar aftur.
Borðin eru orðin risastór, líklega fjórfalt stærri en New York og Miami-borðin í THPS 2. Fyrsta borðið var reyndar frekar þunglamalegt, lítil verksmiðja, en þó er hægt að njóta þess vel, einfaldlega því það býður upp á fullt af kombó-möguleikum.
Annað borðið sem ég komst í er Kanada, og þar byrja lætin. Borðið skiptist í tvö svæði: Trjásvæði, þar sem risastór tré og stökkpallar samtvinnast í eitt, og æfingasvæðið, þar sem hægt er að gera fullt af brögðum og bara skemmta sér vel, örugglega sniðugt í fjölspilun. Ég átti í mesta bagsli við að ná í leynispóluna, en til að ná henni þarf að taka í handfang, stökkva upp á pall sem það lyftir upp, stökkva af honum á rennibraut, af henni á gamla járnbrautarteina, taka svo snögga beygju og taka stökk út í opinn dauðann. Hljómar kannski einfalt, en er í raun verulega snúið.
Tónlistin í leiknum er gríðarlega skemmtileg og virkar vel þegar maður er í “Tony-fílíng”. Ekkert jafnast á við að ná 60.000-stiga bragði og hlusta á Ace of Spades á meðan! Nú verður sko erfitt að bíða þar til prófin eru búin!
Royal Fool