Pro Evolution Soccer Loksins, loksins. Aðdáendur fótboltaleikja geta tekið gleði sína á ný því að snillingarnir hjá Konami eru mættir á PS2 með Pro Evolution Soccer, leikurinn á að koma út á Íslandi á morgun.

Þeir sem hafa spilað ISS Pro Evolution 1 og 2 á PSone vita allt um það hvað þessir leikir eru frábærir. Ég hef spilað FIFA leikina alveg frá því sá fyrsti kom (1994), en þeir hafa farið hríðversnandi seinustu ár og botninum var náð með FIFA 2001. Sá leikur er alveg ömurlegur, halda mætti að þeir sem gerðu þann leik hafi aldrei spilað né horft á alvöru fótbolta. Meirihlutinn af mörkunum sem maður skoraði var með hjólhestaspyrnum og lokatölur eins og 10-8 voru ekki óalgengar.

En ég var svo heppinn að mér áskotnaðist ISS Pro Evolution fyrir PSone og hef ekki hætt að spila hann í nokkra mánuði. Grafíkin er kannski ekki jafn góð og í FIFA en það skiptir engu máli, þetta er einfaldlega svo skemmtilegur leikur. Hann er erfiður í fyrstu og maður þarf að hafa svolítið fyrir því að verða góður í honum en hann verðlaunar það svo sannarlega. Leikurinn byggist upp eins og alvöru fótbolti, maður getur ekki sólað sig upp allan völlinn með fáránlegum og óraunhæfum trikkum eins og í FIFA, heldur verður maður að halda boltanum innan liðsins, gefa boltann á milli og bíða færis. Það er stundum erfitt að skora en þegar það gerist þá er það svo ánægjulegt, það er líka sjaldgæft að maður skori alveg eins mark tvisvar. Það eru möguleikar í sendinga- og skotkerfinu sem finnast ekki í öðrum leikjum, það er t.d. hægt að spila þríhyrninga, gefa stungusendingar (háar og lágar), skotin fljúga ekki öll efst upp í markhornið eins og í FIFA heldur þurfa menn að vera í góðu jafnvægi þegar þeir skjóta og með réttum krafti annars flýgur boltinn bara upp í stúku, einnig er hægt að vippa yfir markmanninn og hægt er að skora mörk af löngu færi (nánast ómögulegt í FIFA) ef maður nær góðu skoti.

Í nýja leiknum er gameplayið svipað og í forverum hans á PSone, að sjálfsögðu hefur þó ýmislegt bæst við. Með tilkomu PS2 hefur grafíkin að sjálfsögðu stórbatnað, og ekki bara það heldur er hún komin framúr keppinautum þeirra hjá FIFA, t.d. eru frægir leikmenn strax þekkjanlegir á velli og öll smáatriði eru til staðar, svosem fyrirliðabönd, mislitir skór, hárbönd o.s.frv. Svo eru leikmenn ekki allir jafnháir eins og í FIFA þannig að menn munu varla sjá Michael Owen taka Sol Campbell í skallaeinvígi í PES. Í gamla ISS voru Konami ekki með leyfi til að nota alvöru nöfn leikmanna og því hétu menn t.d. Bekham og Hanry í staðinn fyrir Beckham og Henry, í PES eru hinsvegar rétt nöfn komin og líka leikvangar og þeir líta út eins og alvöru fyrirmyndirnar. Svo fóru Konami líka í samstarf með Sports Interactive, sem gera Championship Manager leikina, Konami nota tölur úr gagnagrunni Sports Interactive fyrir þá leikmenn sem eru í leiknum þannig að leikmenn hagi sér á sem raunverulegastan hátt og hafi sömu hæfileika og í alvörunni. Það er líka nýtt í þessum leik að hápunktarnir úr hvorum hálfleik eru sýndir, þetta finnst mér vera ótvíræður kostur, þetta var í FIFA 97 (besti FIFA leikurinn) en hefur ekki sést síðan, ég hef saknað þessa. Þetta eru hinsvegar bara plúsar, aðalatriðið er gameplayið og það svíkur engann, þið verðið bara að prófa. Leikurinn hefur alls staðar verið að fá frábæra dóma. Set nokkra linka með:

http://www.consoledomain.com/playstation2/reviews/Pro_Evolution_Soccer.html

http://www.gamespot.co.uk/stories/reviews/0,2160,2099401,00.html

http://www.gamesradar.com/reviews/game_review_482.html
jogi - smarter than the average bear