Nintendogs: Dachshund and Friends umfjöllun eftir KKx2000 a.k.a Kristófer K.
Presentation: 10
Spilun: 9
Grafík: 9
Hljóð: 8
Replay-Value: 8
Lokaeinkunn: 8.8
Ahh já, Nintendogs. Hér er sko leikur sem er ekkert líkur þessum venjulegu leikjum. Er ekki gaman að geta einu sinni hætt að pæla í að ná “headshots” og passa “micro'ið”, heldur getur maður bara inn á milli sagt “Sittu” við DS vélina þína. Nintendogs: hér tekur þú við hundi sem þú þarft að þjálfa og sjá um, eða litlum hvolpi réttara sagt. Þetta er alveg einstakur leikur sem hentar öllum og þegar þú byrjar þá geturðu ekki hætt! Þessi sætu hvolpa augu geta sko dáleitt mann og sæt er tilfinningin þegar þeir gera það sem þú biður þá um og líka bara gleðin að horfa á þá. Ég held að við getum öll verið sammála um að engin bjóst við því að mest seldi Nintendo DS leikurinn væri Hunda Hermir, en samt er það raunin og ekki er ég hissa á því eftir að hafa prófað Nintendogs. Samt er Nintendogs eiginlega ekki leikur, þetta er frekar svona virtual-pet.
Nintendogs fæst í 3 útgáfum, Nintendogs: Dachshund and Friends, Nintendogs: Lab and Friends og Nintendogs: Chihuahua and Friends. Munurinn er kannski ekki svo mikill. Aðalmunurinn er kannski sá að hvolparnir sem hægt er að velja frá upphafi eru ekki þeir sömu í hverri útgáfu. Samt sem áður getur þú eignast tegundir úr hinum tveim útgáfunum sama hvaða útgáfu þú keyptir fyrst. Svo eru nokkur Item, t.d leikföng fyrir hvolpana, sem eru aðeins aðgengileg fyrir hverja úgáfu. Reyndar geturðu “trade'að” þessum hlutum ef þú átt vin, sem á sitt eintak af Nintendogs.
Þegar þú byrjar leikinn þarftu að byrja að velja þér hvolp, þú getur valið um 6. tegundir (tegundir fara eftir hvaða útgáfu af leiknum þú velur) en eins og ég sagði áðan getur hver útgáfa á endanum opnað allar 18. tegundirnar. Þú vilt samt kannski fylgjast með hvaða hund þú velur því hver hundur hefur sinn eigin persónuleika. Suma er erfiðara að þjálfa en aðra. Þegar þú tekur hvolp með þér heim, tekur við að gefa honum nafn. Það virkar þannig að þú segir nafnið upphátt í hljóðnemann á vélinni og endurtekur það svo þangað til að hvolpurinn lærir það. Eftir það mun leikurinn hjálpa þér að kenna honum að sitja og svo ertu einn á báti. Mikil vinna virðist hafa farið í þetta og virðist leikurinn hafa verið gerður af mikilli nákvæmni. Ég er líklegast ekki besti maðurinn í að segja hversu nákvæmir hundarnir eru miðað við alvöru hvolpa.
Að kenna hvolpinum ýmis brögð er ekkert rosalegt vesen, en skemmtilegt er það. Þú þarft að vita hvernig þú átt að meðhöndla snertipennan og hvar þú þarft að snerta hundinn til að fá hann til að gera ýmis brögð. Þegar hann gerir þessi brögð geturðu ýtt á ljósaperu í hægra horninu uppi og sagt upphátt það sem þú vilt kalla bragðið. Þegar þú hefur endurtekið þetta nokkru sinnum mun hvolpurinn þinn læra bragðið utan að og þá er nóg fyrir þig að kalla skipunina í hljóðnema og svo horfa á hann gera það bragð sem fylgir skipuninni.
Það er auðvitað margt meira við leikinn en nokkur hunda brögð. Það er hægt að taka þátt í keppnum, sem er besta leiðin til að afla fjár sem má svo nota í að innrétta íbúðina, kaupa leikföng og matvörur fyrir hvolpinn eða jú, kaupa annan hvolp. Þessar keppnir eru: 1) Disc Competition, þessi keppni gengur út á það að henda frisbí disk og hvolpurinn á að grípa hann til að fá stig. Auðvitað er best að henda beint áfram og eins fast og þú getur, allavega ef hvolpurinn er nógu þjálfaður til að geta náð i hann þannig.
2) Agility Trial gengur út á það að hlaupa í gegnum hálfgerða braut. Hvolpurinn mun stökkva yfir grindur, fara í gegnum rör og fleira. 3) Obedience Trial, þessi keppni gengur út á það að láta hvolpinn þinn gera eitthvert bragð og halda því í einhvern tíma. Svo mun dómarinn gefa þér stig.
Nintendogs reyðir sig aðalega á snertiskjáinn. Þú notar snertipennan í flest sem hægt er að gera t.d klappa hvolpinum, kasta leikföngum fyrir hundinn þinn til að leika sér með, velja hluti og t.d versla ofl. Svo geturðu líka ýtt laust á snertiskjáinn til að fá athygli hans og hann ætti að koma til þín.
Eitt sem þú ættir að gera mikið af er að fara í göngutúr. Þar fær hvolpurinn tækifæri til að pissa og einnig geturðu rekist á ýmisskonar hluti og aðra hunda. Einnig þarftu að fara í göngu til að nálgast garða, æfingastöðvar og verslanir. Svo þarftu jú regulega að gefa hvolpinum að borða, drekka og svo þarf einnig að baða hann regulega. Því miður eru viss takmörk við leikinn, t.d getur þú aðeins farið í göngutúr á 30 min. fresti, en hver hundur getur aðeins tekið þátt í 3 keppnum á dag ofl. Þess vegna er mun hentugra að spila þennan leik í 20-30 min í einu en ekki í fleiri tíma. Þetta er ekki leikur sem hægt er að hanga í endalaust svo mikið er víst en það er nóg að gera og það er alltaf skemmtilegt að leika sér bara við hundinn.
Grafíkin er mjög góð miðað við það sem DS vélin getur gert. Besti hluti grafíkarinnar er í hundunum sjálfum, þú sérð vel hvernig þeim líður og það eru miklar tilfinningar í svipbrigðum þeirra. Leikurinn sýnir fram á vissulega flottar 3D myndir og er ekki hægt annað en að vera ánægður með útlit leiksins. Hvolparnir verða virkilega lifandi og svipbrigðin eru svo raunveruleg að þér á eftir að finnast þetta vera alvöru hundur á tímum, ef ég má taka þannig til orða :) Umhverfin eru einnig nokkuð góð, og virðist mikið hafa verið gert upp úr útliti og er greinilegt að framleiðendur hafa kannað hegðun alvöru hunda til að gera Nintendogs svona raunverulegan. Leikurinn er frekar bjartur og ánægjulegur og getur engin kvartað undan grafíkinni í þessum leik.
Einn besti eiginleiki leiksins er “Bark Mode” sem gerir þér kleift að tengjast öðrum Nintendogs eigendum. Hér geta hvolparnir mæst og leikið sér saman og einnig er þetta leið til að fá ný leikföng og aðra hluti. Einnig er þetta gott upp á að “un-locka” aðrar hunda tegundir úr öðrum Nintendogs útgáfum. Ef þú átt vin sem á Nintendogs skaltu endilega notfæra þér Bark-Mode möguleikann því án hans getur þessi leikur byrjað að endurtaka sig of mikið á tímabili :)
Hver sem þú ert þá átt þú mjög líklega eftir að njóta Nintendogs. Það er greinilegt að þessi leikur er meira fyrir fjöldann heldur en Hard-Core spilara en samt sem áður ættu allir að geta notið Nintendogs. Allir Nintendo DS eigendur ættu að eiga eintak af Nintendogs því þetta er einfaldlega einn af bestu DS leikjunum sem eru á markaðnum í dag.